Aukaþing Alþingis um byggðamál

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 14:18:47 (3680)

2002-01-29 14:18:47# 127. lþ. 62.5 fundur 24. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál# þál., KPál (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[14:18]

Kristján Pálsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég var á mælendaskrá um mál Vinstri grænna, um aukaþing um byggðamál, og hafði reyndar ekki heyrt neitt um að eitthvert samkomulag væri um að ekki mætti tala í þessu máli. Ég var því fyrst að fá upplýsingar um það núna að mælst væri til þess að menn taki helst ekki til máls um málefni þingmannanna sem mér finnst mjög sérstakt.

Ég verð líka að viðurkenna að ég vissi ekki til þess að búið væri að velja úr ákveðin mál og að þau mál sem hér eru til umræðu væru valin af þingflokksformönnum. Það er ekki tekið eftir númerum eins og venja er til. Ég vil því leyfa mér að gera athugasemd við það að ekki skuli vera höfð lýðræðisleg regla um það hvernig mál eru tekin á dagskrá. Mér sýnist þetta vera orðið þannig í mörgum tilfellum að menn fá helst ekki að taka til máls nema um sé að ræða lagafrumvörp. Allar utandagskrárumræður eru nákvæmlega niðurnjörvaðar eins og allir þekkja.

Nú á að njörva niður hverjir mega tala í málefnum sem snúa að þingmönnum og mér finnst, hæstv. forseti, vera farið að þrengja heldur betur að frelsi þingmanna.

Ég ætla að ganga undir þetta jarðarmen að vera ekki að teygja lopann í þessu sérstaka máli sem er til umræðu og tek mig hér með af mælendaskrá, en ég vil ítreka að ég er ósáttur við þessi vinnubrögð.