Aukaþing Alþingis um byggðamál

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 14:22:56 (3683)

2002-01-29 14:22:56# 127. lþ. 62.5 fundur 24. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál# þál., JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[14:22]

Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það að auðvitað er slæmt að þurfa að bjóða þingmönnum upp á þau býti að fá að ræða mál sín í 20 mínútur eða miðað sé við það. Hins vegar vissu þeir sem upp á þetta var boðið að um þetta var að ræða og það voru ýmsir í þingflokki okkar sem ekki höfðu áhuga á því að leggja sín mál inn til umræðu upp á þau býti og það skil ég vel.

Þess vegna vil ég ítreka það sem ég sagði áðan að taka verður á þessu frá hendi stjórnar þingsins, þ.e. að gefa mönnum fleiri tækifæri til að ræða þingmannamál.

Ég vil líka koma því að af því að það kom fram áðan í ræðu að mönnum hefði ekki verið boðið upp á að ræða þessi mál í einhverri númeraröð, þá kann ég ekki hvernig með það hefur verið farið hjá öðrum þingflokkum en það voru formenn þingflokka sem höfðu með það að gera að velja hvaða mál kæmust að og a.m.k. fórum við þannig að því hjá okkur að fara eftir númeraröðinni og því hvort menn vildu taka málin til umræðu þannig að ég sé ekki að brotið hafi verið á neinum með þeirri aðferð.

En allt um það. Ekki er um annað að ræða en reyna að sjá til hvað við komumst áfram með þetta í dag en fordæmið sem hefur náttúrlega komið með fyrsta málinu sem verið er að ræða verður auðvitað til þess að býsna erfitt verður að halda í þessi tímamörk í öðrum málum.