Rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 14:31:09 (3687)

2002-01-29 14:31:09# 127. lþ. 62.6 fundur 48. mál: #A rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði# þál., Flm. ÁSJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[14:31]

Flm. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Í tilefni af þeirri umræðu sem fór hér fram áðan um 5. dagskrármálið má segja að hér sé flutt eitt mál af fjölmörgum sem þyrfti að taka á í sambandi við þróun byggðar í landinu. Hér er um að ræða till. til þál. um rekstur á almenningssamgöngukerfi í Eyjafirði.

Tillagan hljóðar svo:

Eins og getið er um í þáltill. er þessi skýrsla, með úttekt á leiðakerfi fyrir Eyjafjarðarsvæðið, unnin af fyrirtækinu Rekstur og ráðgjöf á Akureyri. Þar er farið fyllilega yfir þessi mál en í millitíðinni hefur verið unnin tilsvarandi tillaga fyrir Þingeyjarsýslur, Suður- og Norður-Þingeyjarsýslu. Þannig má segja að til séu hugmyndir um leiðakerfi fyrir almenningssamgöngur á nýjum grunni fyrir nútímasamfélag fyrir allt Norðurland eystra.

Nú vill svo til, virðulegi forseti, að í millitíðinni hefur hæstv. samgrh. dreift og kynnt á þinginu samgönguáætlun, þ.e. tillögu stýrihóps sem hann hefur látið vinna skýrslu fyrir samgönguáætlun frá 2003--2014. Í þessari skýrslu er auðvitað vikið að almenningssamgöngum. Þar segir að net áætlunarleiða fólksflutningabíla nái víða um land en það er þó ekki samfellt til allra þéttbýlisstaða. Þá koma gjarnan í staðinn fyrir almenningssamgöngur áætlunarbifreiðir til og frá nærliggjandi flugvöllum. Fólksflutningar á þessu neti eru reknir á grundvelli sérleyfa og í minna mæli samkvæmt sérstökum þjónustusamningum.

Í þessari samgönguáætlun kemur einnig fram að ríkið greiðir nú þegar um 100 millj. kr. með þeim almenningssamgöngum sem að miklu leyti byggjast á sérleyfum í landinu eins og það er í dag. Það kemur líka fram að ríkið greiðir verulegar upphæðir til almenningssamgangna í þéttbýli. Þar er fyrst og fremst um að ræða þéttbýli hér á suðvesturhorninu og síðan örfáir aðrir staðir, svo sem Akureyri og Ísafjörður og e.t.v. fleiri. Þar er talað um 80--90 millj. kr.

Virðulegi forseti. Í þessari skýrslu um samgönguáætlun er að mínu mati allt of lítið gert úr hlutverki og mikilvægi almenningssamgangna með rútubílum í landinu. Um það eru engar tillögur. Ég tel að þessi tillaga sem unnin hefur verið fyrir Eyjafjarðarsvæði og Þingeyjarsýslur sé innlegg í þá umræðu sem þarf að fara fram um samgönguáætlunina hvað varðar rútubíla. Það snertir flesta staði á landinu. Tilsvarandi áætlun er mjög auðveldlega hægt að vinna fyrir landið allt eins og gert hefur verið fyrir þessa tvo landshluta þó að um sama kjördæmi sé að ræða, þ.e. Norðurland eystra.

Virðulegi forseti. Þar sem þessi skýrsla, Samgönguáætlun 2003--2014, hefur verið lögð fram af hæstv. samgrh. og menn hafa kannski betur áttað sig á mikilvægi þess að koma almenningssamgöngum í samræmt horf á landinu vona ég að þessi þáltill. verði tekin alvarlegar nú en gert var þegar ég lagði hana fram á 123., 125. og 126. löggjafarþingi.

Það er ljóst að hér er um smápeninga að ræða og í raun og veru hefði skipulagning almenningssamgöngukerfis í landinu öllu átt að vera undanfari þeirra breytinga sem við höfum t.d. upplifað í flugmálum. Hefði ekki verið betra fyrir alla aðila ef almenningssamgöngukerfið hefði verið mótað til að taka á þeim flutningsvandamálum sem upp komu, t.d. þegar á mönnum skall ákvörðun um að hætta flugi á viðkomandi flugvöll? Þetta höfum við ekki gert.

Við erum ekki að finna upp hjólið. Í öllum nágrannalöndum okkar í Skandinavíu, Skotlandi og Þýskalandi hafa menn unnið svona áætlanir samfara breytingum í byggðamálum, samfara breyttum áherslum varðandi þjónustu og flutninga, hvort sem um landflutninga eða flug að ræða.

Þess vegna vona ég, virðulegi forseti, að þessari tillögu verði tekið betur en oftast áður. Ég held að við Íslendingar séum almennt séð, líka í þéttbýlinu, að átta okkur á því að almenningssamgöngur í landinu verður að styrkja.