Áframeldi á þorski

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 14:40:13 (3689)

2002-01-29 14:40:13# 127. lþ. 62.10 fundur 58. mál: #A áframeldi á þorski# þál., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[14:40]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um áframeldi á þorski. Flutningsmenn eru auk mín hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason, Kristinn H. Gunnarsson og Magnús Stefánsson.

Herra forseti. Hér er um endurflutning á þáltill. að ræða. Málið var flutt í fyrra en ekki vannst tími til að afgreiða það og er það því endurflutt núna.

Þingsályktunin er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að Hafrannsóknastofnuninni verði heimilað í tilraunaskyni að úthluta allt að 500 lesta þorskkvóta árlega næstu fimm árin til áframeldis á veiddum þorski. Þessum aflaheimildum verði skipt í sjö jafna hluta og dreift um landið til einstaklinga. Jafnframt verði Hafrannsóknastofnuninni falið að skrá og fylgjast með tilrauninni og birta niðurstöður um reynslu tímabilsins.``

Herra forseti. Rök fyrir þessu eru færð í greinargerð. Einnig má vísa til þeirrar umræðu sem fram hefur farið, m.a. í fjölmiðlum, um þá miklu þróun sem á sér stað og þá miklu möguleika hérlendis sem annars staðar í þorskeldi. Þess vegna er þáltill. þessi flutt. Ég mælist því til þess að henni verði vísað til hv. sjútvn.