Áframeldi á þorski

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 14:46:21 (3691)

2002-01-29 14:46:21# 127. lþ. 62.10 fundur 58. mál: #A áframeldi á þorski# þál., SI
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[14:46]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Herra forseti. Mér finnst þessi þáltill. afar áhugaverð og styð hana eindregið. Talið er að þorskurinn þyngist um 80% frá þriðja til fjórða árs, milli fjórða og fimmta árs þyngist hann um 40% og frá fimmta til sjötta árs sé þyngdaraukning hans um 20%. Þarna væri hægt að sannreyna þetta, og þarna sjáum við líka hversu mikilvægt það er að þorskurinn fái að komast yfir þetta aldursskeið og verða þannig mun verðmætari.

Hv. þm. Össur Skarðhéðinsson minntist áðan á að þorskurinn æti undan sjálfum sér. Rétt er það og nánar tiltekið þá er talið að þorskur éti aðra þorska sem eru allt að 60% af hans eigin þyngd. Ég held að þarna sé afar merkilegt og gott mál á ferðinni og styð það heils hugar.