Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 15:00:01 (3694)

2002-01-29 15:00:01# 127. lþ. 62.21 fundur 361. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (fjárfesting í sparisjóðum) frv., Flm. ÁRÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[15:00]

Flm. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

Frv. hefur legið frammi á þskj. 518 og er efni þess í einni efnisgrein og fjallar um það að veita lífeyrissjóðum heimild til þess að auka fjárfestingar í verðbréfum af því tagi sem eru hlutabréf í fyrirtækjum sem ekki eru skráð á skipulegum verðbréfaþingum, en um það er aðeins eitt heimildarákvæði sem er einfalt og nær til allra þessara fyrirtækja.

Tillögugreinin felst í því að bæta við heimildargrein um að sérstaklega verði fjallað um fjárfestingar í stofnfjárbréfum sparisjóða eða verðbréfum hlutafélaga sem stofnuð eru til að taka yfir starfsemi sparisjóða, eða í verðbréfum sem falla undir 6. tölul. 1. mgr. umræddrar greinar laganna og ekki eru skráð á skipulegum markaði, enda séu a.m.k. 30% af hlutafé þeirra í eigu ríkis eða sveitarfélaga.

Það hefur komið í ljós, herra forseti, að eftir því sem markaðsverð hlutabréfa hefur tekið breytingum hefur á undanförnum missirum verðlag á hlutabréfum í skráðum hlutafélögum lækkað þannig að þrátt fyrir að lífeyrissjóðir sem hafa nú heimild til þess að fjárfesta allt að 10% af eigum sínum eða ráðstöfunarfé í óskráðum bréfum eða bréfum óskráðra fyrirtækja, hafi fjárfest minna en nemur 10%, hefur hlutfallið hækkað þegar hlutfall hinna hefur farið lækkandi. Þetta hefur hitt lífeyrissjóðina illa fyrir og þrengt möguleika þeirra til þess að taka þátt í uppbyggingu fyrirtækja á sínum eiginlegu starfssvæðum. Þetta frv. fjallar um að gerðar verði þær breytingar sem gefa þeim betri kosti í þessu efni.

Að svo mæltu legg ég til að frv. verði vísað til umfjöllunar í hv. efh.- og viðskn. Alþingis og til 2. umr.