Sala á greiðslumarki ríkisjarða

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 15:02:58 (3695)

2002-01-29 15:02:58# 127. lþ. 62.94 fundur 284#B sala á greiðslumarki ríkisjarða# (umræður utan dagskrár), Flm. LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[15:02]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Réttur til beingreiðslna úr ríkissjóði er mikils virði. Það er eftirspurn eftir þessum rétti sem nefndur er greiðslumark. Það er því auðvelt að breyta þessum verðmæta framleiðslurétti í peninga vilji menn það. Þess má geta að lítrinn af greiðslumarki í mjólk er seldur á almennum markaði á u.þ.b. 200--220 kr. Greiðsla á ærgildi fyrir árið 2001 var kr. 4.548.

Það er óumdeilt að þessi miklu verðmæti sem nú ganga kaupum og sölum hafa orðið til vegna aðgerða opinberra aðila við stjórn búvöruframleiðslu í landinu. Þau hafa orðið til vegna viðleitni stjórnvalda til að koma böndum á framleiðsluna eins og þau hafa á stundum kallað aðgerðir sínar í landbúnaðarmálum.

Í lagaákvæðum sem fjalla um greiðslumark er hvergi tekið fram hver sé eigandi þessara réttinda. Hins vegar er víða að finna í lögum og reglugerðum ákvæði þess efnis að greiðslumark skuli bundið við lögbýli. Undanfarin ár hefur reynt á þessa löggjöf fyrir dómstólum. Í tugum mála hefur ríkið varið þá túlkun sína að landeigandi sé handhafi þessa réttar.

Eins og fram kemur í svari til mín frá hæstv. landbrh. hafa 49 ríkisjarðir með skráð greiðslumark verið seldar frá árinu 1997 til og með árinu 2001. Verðmæti greiðslumarks á hverri jörð hleypur jafnan á milljónum eða milljónatugum eftir því hversu framleiðslurétturinn er mikill. Því er varlegt að áætla sem svo að verðmæti sem hafa fylgt þessum ríkisjörðum við sölu hlaupi á hundruðum milljóna, sem umboðsmaður almennings, í þessu tilviki hæstv. landbrh., krafðist ekki endurgjalds fyrir. Þessi verðmæti hafa því í reynd verið gefin án skilyrða um búsetu, án skilyrða um áframhaldandi búskap á jörðinni eða þá að sá sem kaupir sé sá sami og skóp réttinn.

Það sem gerir þessi vinnubrögð enn undarlegri er að ríkið hefur jafnan gripið til varna þegar bændur hafa sótt að þessum réttindum fyrir dómstólum. Bændur hafa viljað láta á það reyna hvort þeir sem sköpuðu framleiðsluréttinn séu eigendur þessara réttinda. Það er eðlilegt að deilt sé um hvort framleiðslurétturinn eigi að tilheyra þeim sem skapaði hann eða hvort hann eigi að tilheyra landeiganda. Vissulega má halda því fram með rökum að það hefði verið eðlilegra að framleiðendur hefðu talist eigendur þessara réttinda en ekki landeigendur, en dómstólar hafa kveðið upp úr um það.

Niðurstaða dómstóla hefur verið sú að landeigandi eigi þennan rétt. Þetta hefur fengist staðfest í hverju málinu á fætur öðru þar sem ríkið hefur varið rétt sinn.

Það sem vekur sérstaka furðu mína og þeirra sem hafa fylgst með þessum málum er sú staðreynd að eftir að ríkið hefur varið rétt sinn með kjafti og klóm, mikilsverð fjárhagsleg réttindi, þá er þessi sami réttur afhentur kaupendum ríkisjarða án þess að vera metinn sérstaklega til fjár við sölu. Hvernig er hægt að skilja svona nokkuð?

Eftir standa spurningar líkt og þær hvort allir hafi setið við sama borð, hvort allir hafi haft rétt á að kaupa o.s.frv. Það er vægast sagt sérstætt að fyrst skuli allri þessari vinnu vera eytt í að verja þessi réttindi, berjast fyrir þeim sjónarmiðum að þau tilheyri jarðeiganda en gefa þau svo frá sér við fyrsta tækifæri.

Í áliti ríkisendurskoðanda, dags. 14. des. sl., kemur fram að Ríkisendurskoðun tekur ekki afstöðu til mats á söluverði jarðanna, hverju svo sem það sætir, svo hæstv. ráðherra getur ekki skákað í því skjóli að Ríkisendurskoðun hafi lagt blessun sína yfir þessa söluaðferð. Það sem eftir stendur er að hæstv. ráðherra hefur afhent mikil verðmæti frá ríkinu án þess að gera kröfu til endurgjalds af þeim sem keyptu.

Hér hefur aðeins verið fjallað um greiðslumarkið en ekkert verið rætt um það hvernig veiðiréttindi eru metin til fjár auk annarra hlunninda sem kunna að fylgja þessum jörðum. Þá hef ég ekki nefnt sérstaklega þá staðreynd að í nokkrum tilvika hefur ráðherra heimilað ábúendum á ríkisjörðum að selja greiðslumarkið af jörðinni, frá jörðinni sérstaklega. Það er augljóst að heimildir til þess eru vandfundnar.

Að öllu þessu samanlögðu hef ég leyft mér að leggja þrjár spurningar fyrir hæstv. landbrh. sem hann fékk sendar í gær. Þær eru:

1. Hvaða lagaheimildir heimila landbrh. að undanskilja greiðslumark verði ríkisjarða við sölu þeirra?

2. Hvert er verðmæti greiðslumarks sem fylgdi þeim 49 ríkisjörðum sem seldar voru með greiðslumarki á árunum 1997--2001, miðað við verðlag á markaði í dag?

3. Hver var tilgangur ríkisins að verja réttindi sín í svo mörgum málum, jafnvel upp í Hæstarétt, ef ekki þykir ástæða til þess að meta þau til fjár við sölu?