Sala á greiðslumarki ríkisjarða

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 15:24:04 (3701)

2002-01-29 15:24:04# 127. lþ. 62.94 fundur 284#B sala á greiðslumarki ríkisjarða# (umræður utan dagskrár), ÓB
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[15:24]

Ólafur Björnsson:

Virðulegi forseti. Samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 24. febrúar árið 2000 er ljóst að greiðslumark í mjólk, svokallaður mjólkurkvóti, er eign jarðeiganda en ekki ábúanda. Áunninn mjólkurkvóti er því eign ríkisins á ríkisjörðum. Hins vegar er ábúanda heimilt að kaupa greiðslumark til ríkisjarða sem hann býr á og þá verður það séreign hans, sbr. 3. mgr. 47. gr. núgildandi búvörulaga.

Þessi dómur Hæstaréttar markaði ákveðin tímamót að mínu mati varðandi réttarstöðu ábúenda gagnvart greiðslumarki. Fram að þeim tíma var það skoðun mjög margra bænda að kvótinn væri eign þeirra í hlutfalli við eign þeirra á jörðinni. Þessum dómi voru margir mjög ósammála, en hann er niðurstaðan. Það er því ljóst að það verður að endurskoða vinnureglur ríkisins við mat á verðmætum í ljósi þessa dóms. Hins vegar er það mín skoðun að sú verðmætaaukning sem hefur orðið á ábúðarjörð fyrir atbeina ábúandans hlýtur að koma til uppgjörs við ábúðarlok eða þegar ábúandi kaupir jörð. Hann á réttmætt tilkall til endurgjalds vinnu sinnar og hann hefur, hvað sem hver segir, auðvitað skapað þennan kvóta. Tekið hefur verið tillit til þess við sölu ríkisjarða og eins við ábúðarlok.

Ég vil líka benda á það í þessari umræðu að ríkið áskilur sér forkaupsrétt að jörðum þegar það selur ríkisjarðirnar með þeim hætti sem gert hefur verið og á því forkaupsrétt selji ábúendur þær aftur. Það þarf að fara fram mat á því í ljósi breyttra aðstæðna og í ljósi upplýsinga um það að menn eru að hætta búskap skömmu eftir að þeir kaupa ábúðarjarðir sínar að hugsanlega þarf að beita þessum forkaupsrétti oftar en gert hefur verið.