Samstarf fagstétta í heilsugæsluþjónustu

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 15:48:25 (3712)

2002-01-29 15:48:25# 127. lþ. 62.8 fundur 55. mál: #A samstarf fagstétta í heilsugæsluþjónustu# þál., Flm. KF
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[15:48]

Flm. (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Að lokum langar mig að þakka fyrir jákvæð viðbrögð við tillögunni.

Í lögum um heilbrigðisþjónustu er upptalningin í 19. gr. um hvaða þjónustu skuli veita á stöðvunum ansi víðtæk. En þar segir reyndar að á heilsugæslustöð eða í tengslum við hana skuli veita þjónustu eftir því sem við eigi og þar segi. Það táknaði í huga þeirra sem settu þau lög á sínum tíma, eftir því sem ég best veit, að það mætti leysa mál með öðrum hætti en að öll starfsemin væri inni á heilsugæslustöðvum. Oft geta einkaaðilar leyst slík verkefni.

En það hefur þó sýnt sig á þeim stöðum sem ég gerði að umtalsefni áðan, m.a. á Akureyri, í Grafarvogi og í Hafnarfirði, að slíkt samstarf er mjög gagnlegt. Það er mjög gagnlegt fyrir skjólstæðingana og aukið framlag fleiri fagstétta í þeirri þjónustu ætti jafnframt að geta létt álagi af heimilislæknum og hjúkrunarfræðingum sem starfa á stöðvunum og aukið afköst, aukið gæði og víkkað þjónustusviðið. Það skiptir máli þegar reynsla er fyrir því að það gefist vel.

Það má ráða að heilsugæslunni fólk, gera má samninga við fólk úti í bæ. Ýmsar leiðir eru til. En ég hafði sérstaklega í huga félagsráðgjafa, sálfræðinga og fjölskylduráðgjafa. Það þarf að vera gott aðgengi að geðlæknum til samstarfs við þá sem vinna í heilsugæslunni. Tillagan hvetur til samvinnu milli þessara stétta.

Ég tel að slík aðferð sé líkleg til að stuðla að því að fyrirbyggja vandamál, á réttum stað í heilbrigðisþjónustunni og hún sé þess vegna fjárfesting fyrir næstu kynslóð og til lengri tíma. Það má mæla árangur af slíkri vinnu með því að meta jafnt og þétt með rannsóknum og endurmati. Ég hvet til þess að það verði gert. Það eru vissir hópar sem eru auðvitað áhættuhópar, en almennt verður maður að segja að reynslan er góð af slíku samstarfi og ég vona að tillagan fari til síðari umr. og til hv. heilbrn. þingsins.