Rannsóknir á þorskeldi

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 16:17:41 (3721)

2002-01-29 16:17:41# 127. lþ. 62.9 fundur 56. mál: #A rannsóknir á þorskeldi# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[16:17]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er verið að ræða till. til þál. um rannsóknir á þorskeldi og fyrr í dag var gerð till. til þál. um áframeldi á þorski, hvort tveggja hin ágætustu mál.

Þorsk vantar inn á markað. Það liggur auðvitað í því að í fjölda ára, ef ekki áratuga, var veiddur þorskur úr Norður-Atlantshafi einhvers staðar á bilinu 1,4--1,5 milljónir tonna. Ætli heildarveiðin úr Norður-Atlantshafi sé ekki nú í kringum 700.000--800.000 þúsund tonn af þorski. Þar af leiðandi hefur orðið vöntun á þorski á mörkuðum og verðið hefur stigið. Þar fyrir utan sýna auðvitað rannsóknir sífellt betur að fiskur er holl fæða, stuðlar að heilbrigði og kemur jafnvel í veg fyrir sjúkdóma eins og hjartasjúkdóma og kransæðastíflur.

Þessar ástæður hafa auðvitað búið til þau skilyrði að núna telja menn að það sé lag til þess að koma með þorsk inn á markað, þorsk sem menn hafa þá tekið til eldis, hvort sem það hefur verið með því að veiða hann smáan og ala hann áfram eða rækta hann frá klaki í seiði og síðan áfram.

Þetta eru núverandi aðstæður og staðreyndin er að þorskur er í dag seldur á hærra verði en lax. Samt sem áður er rétt að flýta sér hægt og yfirvegað. Ég er þó alls ekki með þessum orðum mínum að draga úr því að við reynum að fara af stað með þorskeldi og auka það eins og við getum. Við vitum jú að það er mjög arðbært að veiða smáan þorsk, setja hann í kvíar og ala hann. Hann þyngist mjög hratt á þessum árum, frá tveggja til fjögurra ára, og með því að hafa nægt æti erum við að fá út vöxt sem nemur jafnvel allt að tveimur kílóum á tiltölulega stuttum tíma, eða frá vori og fram á haust eða vetur. Fái fiskurinn þannig nægt æti sem honum líkar vex hann hratt við réttar aðstæður.

Það væri hins vegar örugglega það arðbærasta sem við gætum gert, ef við næðum tökum á því, að veiða þorskinn þegar hann er nánast seiði, um það leyti sem hann er kominn í það ástand að hann fari að leita botns. Ef okkur tækist það veiddum við seiði sem væru allt að fimm sentimetrar og gætum þar af leiðandi veitt þorskinn í því ástandi að hann er að fara að leita botnsins. Þá er hann akkúrat á því stigi þegar hvað mest afföll verða af honum, þ.e. frá því að hann klekst út uppi í sjó og þar til hann leitar botns á fyrsta ári verða mjög mikil afföll af honum.

Tækist okkur að veiða seiðin á þessu fyrsta ári og koma þeim í eldi þannig að þau tækju við fæði og yxu hratt og ef ekki yrðu mikil afföll er ekki vafamál að við næðum mikilli arðsemi út úr því sem við aðhefðumst miðað við það sem náttúran getur gefið okkur og þau afföll sem verða á þorski á fyrsta ári.

Það er alveg rétt sem hefur komið fram að nokkrir staðir við landið eru þekktir sem nokkuð árviss seiðasvæði fyrir þorsk. Það eru m.a. Ísafjarðardjúp og iðulega Húnaflói, ásamt auðvitað fleiri fjörðum. Það er mjög þekkt vegna þess að síðsumars eða snemma á hverju hausti fara fram rannsóknir vegna rækjuveiða á þessum svæðum og í Arnarfirði t.d. líka og á Breiðafirði og víða fyrir Norðurlandinu. Það er auðvitað þekkt að það hefur oft komið fyrir að ekki hefur verið hægt að hefja rækjuveiðar á þessum svæðum með þeim smáa möskva sem í rækjuvörpunum eru vegna þess að seiðamagn hefur verið mjög mikið. Þar af leiðandi hefði auðvitað verið hægt að veiða smáan þorsk ef menn hefðu einbeitt sér að því.

Ef við lítum á þessar staðreyndir blasir það við að ef við einbeittum okkur að því að veiða nokkurt magn af smáum þorski, fyrsta og annars flokks þorski, tækist okkur örugglega að ná slíku upp í verulegu magni. Eins og hér hefur komið fram værum við auðvitað að margfalda afraksturinn ef okkur tækist að ala þessi seiði af því að afföllin eru mest á þessum árum.

Þetta held ég að sé mjög áhugavert. Og ég veit ekki betur en að menn hafi verið að gera slíkar tilraunir norður í Ísafjarðardjúpi nú í haust, að veiða þar nokkurt magn þorskseiða og þau séu núna í eldi. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig mönnum tekst til við það.

Mjög merkileg tilraun í þorskeldi hefur farið fram hér við land. Einar K. Guðfinnsson gat hennar áðan, en einhver merkilegasta tilraun sem sýnir hvað þorskurinn getur lifað við erfiðar aðstæður fór fram fyrir tilviljun norður í Súgandafirði fyrir nokkrum árum og er sennilega eitthvert merkilegasta líffræðilega fyrirbæri varðandi rannsóknir á þorski sem ég hef séð.