Rannsóknir á útbreiðslu, stofnstærð og veiðiþoli kúfskeljar

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 17:06:47 (3730)

2002-01-29 17:06:47# 127. lþ. 62.12 fundur 131. mál: #A rannsóknir á útbreiðslu, stofnstærð og veiðiþoli kúfskeljar# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[17:06]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér hefur verið gerð grein fyrir till. til þál. um rannsóknir á útbreiðslu, stofnstærð og veiðiþoli kúfskeljar. Ég vil lýsa stuðningi við þáltill. ásamt þeim tillögum sem talað hefur verið fyrir sem lúta að svipuðu efni, þ.e. þáltill. um áframeldi á þorski og þáltill. um rannsóknir á þorskeldi sem mælt hefur verið fyrir í dag og nú er verið að tala fyrir rannsóknum á útbreiðslu, stofnstærð og veiðiþoli kúfskeljar. Allar þessar þáltill. eru að mínu mati mjög mikilvægar og ætla ég ekki að gera upp á milli þeirra.

Herra forseti. Við höfum dregist aftur úr öðrum þjóðum hvað varðar grunnrannsóknir á ýmsum sviðum og það á ekki síst við um rannsóknir í hafinu. Því er það ánægjuefni að hér skuli koma fram þáltill. til að styrkja nýjar atvinnugreinar sem byggja á rannsóknum svo við getum talið okkur geta farið út í atvinnugreinar og veiðar og vinnslu án þess að ganga á höfuðstól viðkomandi tegunda.

Einnig er mjög mikilvægt að hugsa til þess að rannsóknir, hver á sínu sviði, gætu orðið til þess að styrkja byggð í landinu, a.m.k. verða þær til þess að skjóta stoðum undir fjölbreyttara atvinnulíf og það er það sem við þurfum að gera. Við þurfum að efla rannsóknir á hinum ýmsu sviðum til þess að geta staðið að fjölbreyttara og traustara atvinnulífi. Við eigum ekki að setja öll eggin í eina körfu. Við eigum að nýta náttúru lands og sjávar og styrkja byggðirnar með atvinnulífi sem byggir á auðlindum viðkomandi svæða og frumkvæði fólksins.

Það er rétt sem hér hefur komið fram að varla er ásættanlegt að ætlast til þess að einstaka fyrirtæki leggi út fyrir grunnrannsóknum og tilraunum á afmörkuðum sviðum ef við viljum að sú vitneskja sem fæst hjá einu fyrirtæki geti rennt stoðum undir rekstur annarra fyrirtækja. Þarna á hið opinbera að koma inn, þ.e. í grunnrannsóknirnar og tilraunastarfsemina og standa þannig að verki að fleiri aðilar geti þá fengið þær niðurstöður og hafið framleiðslu eftir því sem náttúran gefur tilefni til á viðkomandi svæðum.

Ég vil taka undir þá ábendingu að við gætum lengt þennan lista nú þegar með því að bæta við rannsóknum á kræklingi og vinna okkur markað með því sem við teljum hreinni vöru en við getum fengið í Evrópu.