Verslun með áfengi og tóbak

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 17:11:26 (3731)

2002-01-29 17:11:26# 127. lþ. 62.13 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., Flm. VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[17:11]

Flm. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, með síðari breytingum.

Auk mín flytja málið hv. þm. Þorgerður Gunnarsdóttir, Árni Ragnar Árnason, Ásta Möller og Pétur H. Blöndal.

Frv. þetta gerir ráð fyrir breytingum á áðurnefndum lögum. Þær eru í tvennu lagi. Í fyrsta lagi að Áfengis- og tóbaksverslunin skuli framselja einkaleyfi sitt til smásölu áfengis. Annars vegar til rekstraraðila verslunar sem fengið hefur leyfi sveitarstjórnar til reksturs áfengisútsölu sem ætlað er að vera sérverslun með áfengi. Og hins vegar ef rekstraraðili verslunar, sem fyrst og fremst verslar með aðrar vörur, hefur fengið leyfi sveitarstjórnar til reksturs áfengisútsölu, og eru gerðar ákveðnar kröfur um takmörkun á hillurými í slíkri verslun. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að verslunum sem selja áfengi samkvæmt þessum heimildum sé óheimill aðgangur að innkaupakerfi ÁTVR.

Með frv. er lagt til að opnað verði fyrir smásöluverslun með áfenga drykki í öðrum verslunum en á vegum ÁTVR. Ástæðan er fyrst og fremst sú að við flutningsmenn teljum að núverandi fyrirkomulag sé orðin mikil tímaskekkja. Viðskiptavinir áfengisverslunarinnar gera sífellt meiri kröfur um aukna þjónustu. Verið er að opna nýjar verslanir og sífellt er verið að bæta aðgengi viðskiptavinanna að vörum. Sífellt er verið að leggja áherslu á að bæta vöruúrval, bæta þjónustu, lengja opnunartíma o.s.frv. Þau rök eru því ekki lengur til staðar að starfsemi ÁTVR sé til þess fallin að takmarka aðgengi að áfengi í einhverjum teljandi mæli. Þvert á móti er rekstur verslunarinnar farinn að miðast við það að teygja sig eins mikið að neytendum og kostur er. Segja má að ÁTVR hafi verið á þeirri leið. Það hefur því orðið alger stefnubreyting í starfsemi ÁTVR á undanförnum árum hvað þetta varðar. ÁTVR þjónar því ekki lengur neinu hlutverki sem liður í áfengispólitík Íslendinga í dag, engu hlutverki.

[17:15]

Fyrir hinn venjulega neytanda er það hin almenna skoðun varðandi flestar vörur að fólk vill ekki láta neyða sig til viðskipta við einhvern ákveðinn aðila. Ég hygg að fyrir langflesta viðskiptavini ÁTVR sé staðan sú að þeir telji viðskipti sín með þessa vöru ekki vera neitt sérstakt vandamál og alls ekki slíkt vandamál að það kalli á einhverja þörf á einokun ríkisins á þeim viðskiptum. Ég hygg að það sé orðin nokkuð almenn skoðun og hefur reyndar oft komið fram í skoðanakönnunum að hinn venjulegi neytandi vill gjarnan geta fengið að umgangast þessa vöru og nálgast hana á venjulegan hátt, þ.e. að viðskipti með hana í verslunum lúti sambærilegum lögmálum og sams konar fyrirkomulagi og venjulegar vörur.

Með þeirri breytingu sem lögð er til má gera ráð fyrir að neytendur hafi eðlilegan aðgang að umræddri vöru. Það gildi sömu lögmál um framboð á vörunni eins og algengt er. Ríkið hefur enga sérstaka fjárhagslega hagsmuni af því að halda í núverandi fyrirkomulag. ÁTVR er hætt að flytja inn áfengi, innflutningurinn er í höndum heildsala, innheimta á áfengisgjaldi er innheimt í tolli eða hjá framleiðendum og þess vegna er engin peningaleg áhætta á því að breyta um fyrirkomulag. ÁTVR er farið að fúnkera hvað snertir verslun með áfengi eins og venjulegt verslunarfyrirtæki sem þarf að lifa af sinni álagningu. Þess vegna eru ekki neinir slíkir peningalegir hagsmunir í húfi.

Að sjálfsögðu er ekki gert ráð fyrir því að neinar breytingar verði á hvað snertir aldursmörk þeirra sem mega kaupa áfengi, þau mörk yrðu óbreytt. Þeir sem selja áfengi í almennum verslunum yrðu að sjálfsögðu að uppfylla almenn skilyrði og gæta þess að ekki væri verið að afgreiða viðskiptavini sem eru undir áfengiskaupaaldri. Ég hygg að það fari ekki eftir verkalýðsfélögum eða aðild starfsfólks að verkalýðsfélögum hvort þeim er betur eða verr treystandi til þess að fylgja slíkum skilyrðum eftir. Ég tel að það starfsfólk sem er í almennum verkalýðsfélögum eða verslunarmannafélögum í kringum landið sé alveg fullfært um að fylgja slíkum skilyrðum eftir og þurfi ekki að vera í félögum opinberra starfsmanna til þess að geta greint þar á milli með fullri virðingu fyrir þeim.

Smásöluaðilum yrði sjálfum falið að ákveða vöruframboð og ef þetta frv. verður að lögum má gera ráð fyrir að reknar verði sérverslanir sem bjóði upp á gott úrval af þessum vörum og sérhæfi sig í sölu á einstökum tegundum áfengis. En ætla má að blönduðu verslanirnar yrðu fyrst og fremst matvöruverslanir þar sem meginframboðið yrði af léttu víni og bjór.

Ekki er gert ráð fyrir því í frv. að ÁTVR sem slík verði lögð niður en það má að sjálfsögðu ætla að samkeppnisstaða einokunarsölunnar verði eitthvað lakari við slíka breytingu en tíminn einn leiðir í ljós hvort starfsgrundvöllur verður fyrir fyrirtækið á eftir og hvort fyrirtækið er það vel rekið og vinsælt að neytendur muni flykkjast þangað og versla við það fyrirtæki þrátt fyrir að aðrir séu komnir til skjalanna og veiti því samkeppni.

Ég hygg að þessi breyting muni sérstaklega hafa jákvæð áhrif úti um land í litlum byggðarlögum þar sem ÁTVR hefur ekki enn þóknast að opna útsölu. Þar muni almenningur hafa betra aðgengi að vörunni og ekki þurfa að þola þá grófu mismunun sem hingað til hefur verið. Eins mun þetta að sjálfsögðu hjálpa ferðafólki, sumarbústaðafólki og öðrum sem vilja gjarnan komast að þessari vöru en geta ekki vegna þess einokunarfyrirkomulags sem fyrir hendi er.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til efh.- og viðskn. og síðan til 2. umr. og venjulegrar meðferðar í þinginu.