Verslun með áfengi og tóbak

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 17:25:28 (3734)

2002-01-29 17:25:28# 127. lþ. 62.13 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[17:25]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sannfærður um að ef svona verður farið að eins og lagt er til í frv., þá mun verða mjög mismunandi verð á áfengi á hinum einstöku stöðum vegna þess að þeir kaupmenn sem munu versla með það munu auðvitað vilja hámarka sinn hagnað og ef þeir eru í einokunaraðstöðu, þá þekkjum við alveg hvað gerist, þá er verðið hærra, það þarf ekki annað en fylgjast með verslun með aðrar vörur til þess að sjá að þannig yrði það. Menn yrðu þá bara að horfa framan í það að svo væri í pottinn búið.

Það er alveg rétt að áfengisverslunin hefur auðvitað ekki tryggt mönnum verð nema þar sem áfengisverslun er til staðar, en útsölum hefur verið að fjölga um landið á undanförnum árum og það eru orðnar miklu styttri vegalengdir til að komast í áfengisverslanir en var áður.

Ég er ekki að halda því fram að hægt sé að setja upp áfengisverslanir á öllum þéttbýlisstöðum en örugglega er hægt að veita betri þjónustu en nú er og ef menn telja að þjónustan muni aukast með því að koma þessu í hendur einkaaðila, þá held ég að menn geti líka verið sammála um að Áfengisverslun ríkisins ætti að geta veitt meiri þjónustu en hún gerir. Ég tel að það sé miklu nær að menn leggi áherslu á þá þjónustu, að hún sé til staðar, heldur en að menn fari út í það sem hér er verið að leggja til, sem ég er sannfærður um að muni ekki verða til annars en að drykkjuskapur verður miklu meiri og verð á áfengi miklu hærra en það er núna.