Verslun með áfengi og tóbak

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 18:02:08 (3746)

2002-01-29 18:02:08# 127. lþ. 62.13 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[18:02]

Mörður Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér hafa verið fluttar tvær framsöguræður fyrir þessu ágæta frv. Það er auðvitað fróðlegt að heyra þær báðar vegna þess að þær koma hvor úr sínum armi flutningsmanna. Að vísu kann það að virðast svolítið á skjön við samkomulagið sem mér skildist að hefði verið gert við þessa þingmannamálsumræðu alla, að flytja tvær framsöguræður og verja svo miklum tíma í þetta mál.

Hins vegar verð ég að fagna ræðu hv. þm. Ástu Möller. Það er kannski eðlilegt og telst ekki til undra að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, sem líka er framkvæmastjóri Verslunarráðs og hefur einkum gætt hagsmuna verslunarinnar og kaupmanna, sem eru ágætir hagsmunir svo langt sem þeir ná, flytji tillögu af þessu tagi. En fleiri kann að undra að hv. þm. Ásta Möller sé meðflm. að slíkri tillögu vegna þess að hún hefur gert sér far um að sinna heilbrigðismálum í samræmi við feril sinn.

Ég vil spyrja hana, virðulegi forseti, vegna þess að hún flutti hér fróðlega ræðu um áfengismál og sögu þeirra á Íslandi á síðustu öld, sem lýsir ákveðnum þjóðarkarakter okkar: Hvar ætlar hún að enda? Hún getur ekki sagt A, þó að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson geti það. Hún getur ekki gert það. Hvar ætlar hún að láta staðar numið? Hún vill taka þetta skref í einkaréttarmálunum. Hvar ætlar hún að enda í hinum þremur þáttunum sem hún nefndi í áfengismálum? Hún verður að gera okkur grein fyrir því.

Vill hún lækka aldursmörk? Vill hún leyfa auglýsingar, kostun eða annan markaðslegan áróður? Vill hún lækka verð á vínum yfir höfuð?