Verslun með áfengi og tóbak

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 18:07:29 (3749)

2002-01-29 18:07:29# 127. lþ. 62.13 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[18:07]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég held áfram að svara því sem ég var spurð að áðan og vonandi næ ég að koma að fleiri atriðum. Áfengiskaupaaldurinn er í dag 20 ár. Ég var þeirrar skoðunar að færa ætti hann niður í 18 ár þar til að ég fór í nefnd sem átti að skoða hvernig stemma ætti stigu við ölvunarakstri. Þá skoðaði ég tölur sem sýndu að sú ráðstöfun, ákvörðun um að lækka áfengiskaupaaldur úr 20 árum í 18 ár, felur í sér hættu á 20% aukningu á dauðaslysum vegna ölvunaraksturs. Það fékk mig til að staldra við. Ég er þeirrar skoðunar að áfengiskaupaaldurinn eigi að vera 20 ár og eigi ekkert að breytast.

Ég sé ekkert óeðlilegt við að unglingar fái í skrefum aukin réttindi, ökuréttindin við 17 ára aldurinn, við 18 ára aldurinn sjálfræði og um tvítugt leyfi til áfengiskaupa.

Varðandi verð á áfengi hef ég sýnt fram á það með tölum að neysla á áfengi breyttist verulega við lögleiðingu bjórsins. Sú breyting hefur orðið á að fólk neytir frekar léttra vína og bjórs en sterkra vína. Ég tel því að skoða eigi þá leið að lækka enn frekar verð á léttum vínum og bjór. Þannig er svar mitt við þessum spurningum hv. þm.

Það er ljóst að breytingar á áfengisstefnu geta leitt til aukinnar neyslu á áfengi. Við vitum alveg að þessi fjögur atriði, breyting á þeim, getur leitt til aukningar. Ég tel líka að það geti leitt til viðhorfsbreytingar í þá veru að fólk umgangist áfengi með öðrum hætti en áður, með menningarlegri hætti.