Heildarstefna um uppbyggingu og rekstur meðferðarstofnana

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 18:17:30 (3751)

2002-01-29 18:17:30# 127. lþ. 62.14 fundur 233. mál: #A heildarstefna um uppbyggingu og rekstur meðferðarstofnana# þál., KVM
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[18:17]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er verið að leggja fram gagnmerka þáltill. sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er 1. flm. að, og er hún hið besta mál. Verið er að velta þeirri nauðsyn upp að menn geri sér grein fyrir því hvar bestur árangur sé hjá meðferðarstofnunum, og það er ágætt að menn hafi einhverjar hugmyndir um það. Reyndar má búast við því að menn muni deila um það hvað er árangur og hvað er ekki árangur, og svo eru sjúklingar náttúrlega misjafnlega illa haldnir af sjúkdómi sínum og kannski fá sumar meðferðarstofnanir létta sjúklinga og aðrar þyngri, ef svo má að orði komast, eða þá sem eiga erfiðara með að sigrast á áfengisfíkninni.

Það er skondið, herra forseti, að þessi þáltill. skuli koma í kjölfar þeirrar sem hér var áðan uppi á borðum, en sú þáltill. fjallar einmitt um hversu nauðsynlegt sé að gefa aukið frelsi í áfengissölu. Kannski hefði verið vert að lesa þessar greinargerðir saman til að glöggva sig á hvaða áhrif neikvæð afleiðing af neyslu áfengis og vímuefna hefur á fólk. En mér líst vel á þessa tillögu, herra forseti, og ég tel hana vera allra góðra gjalda verða og að hún eigi að fá jákvæða umfjöllun. Hún á einmitt að vera til þess að við tökum okkur á í þessum málum. Þetta minnir á að það var stjórnmálaflokkur hér í kosningabaráttunni fyrir fáum árum sem ætlaði að setja 1 milljarð í forvarnir. Kannski er milljarðurinn kominn, en þurfum við þá e.t.v. að bæta öðrum við? Eins og ástandið er í dag í eiturlyfjaheiminum --- það sem við heyrum þaðan af ýmsu smygli á eiturlyfjatöflum alls konar og vaxandi neyslu áfengis --- veitir okkur ekkert af forvörnum því að þetta mál er eitt mesta og alvarlegasta heilbrigðisvandamál þjóðarinnar. Það er alveg sama hvað menn segja um það, eitt mesta böl samfélagsins er ofdrykkja og neysla eiturlyfja. Það er algjörlega ófært að vera að auka aðgengi að þessari vöru því að þeir sem eru með ,,fulde fem`` og ekki haldnir áfengisfíkn þurfa ekki allt í einu að drífa sig út í búð og kaupa sér skyndilega eina flösku, eða þar sem þeir eru staddir í matvörubúðinni. Það er ekki þannig.

Að við höfum sérlög um áfengi kemur bara best fram í þessari þáltill. Þetta er stórhættulegt efni og ef nýbúið væri að finna það upp yrði það flokkað með efnum eins og e-töflum og öðrum lyfjum eða efnum sem skemma líkama og sál manna --- barna og ungmenna og allra.