Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 18:38:19 (3756)

2002-01-29 18:38:19# 127. lþ. 62.15 fundur 266. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. KLM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[18:38]

Flm. (Kristján L. Möller):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um vöruverð og rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni. Auk mín eru flutningsmenn hv. þm. Össur Skarphéðinsson, Einar Már Sigurðarson, Sigríður Jóhannesdóttir, Gísli S. Einarsson, Karl V. Matthíasson, Guðrún Ögmundsdóttir, Jóhann Ársælsson og Lúðvík Bergvinsson.

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að þessi þáltill. er flutt felst í umræðunni um byggðamál þar sem það er vel þekkt að vöruverð er töluvert hærra á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og einnig vegna þess að rekstrar- og samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni gagnvart höfuðborginni er að versna vegna flutningskostnaðar. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að kanna þróun vöruverðs og rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni síðastliðin tíu ár og bera saman við þróunina á höfuðborgarsvæðinu á sama tímabili. Nefndin kanni jafnframt hvaða þættir hafi helst áhrif á vöruverð og rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni annars vegar og á höfuðborgarsvæðinu hins vegar og hvar skilji á milli.

Nefndin kanni sérstaklega og meti:

a. áhrif þungaskatts á vöruverð og hvaða áhrif breytingar undanfarinna ára á þungaskatti hafa haft á vöruverð á landsbyggðinni.

b. Áhrif þungaskatts á rekstrarskilyrði og samkeppnishæfni atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni og hvaða áhrif breytingar undanfarinna ára á þungaskatti hafa haft á rekstrarskilyrði þeirra.

Nefndin móti tillögur sem hafi að markmiði að draga úr áhrifum þungaskatts á vöruverð og jafni rekstrarskilyrði atvinnufyrirtækja í sambandi við flutningskostnað milli landsvæða.

Nefndin skili skýrslu til Alþingis fyrir 1. október 2002.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan er ástæðan ærin að flytja þessa tillögu og væri mikið þarfaverk ef Alþingi féllist á að skipa nefnd til að kanna þá þætti sem ég hef hér gert að umtalsefni. Ljóst er að verðlagskannanir hafa sýnt að verðlag á landsbyggðinni er yfirleitt hærra en á höfuðborgarsvæðinu og munar oft talsverðu. Þá hafa kannanir sýnt að fólk telur óhagstætt verðlag á meðal helstu ókosta þess að búa á landsbyggðinni. En í gildandi byggðaáætlun, sem ég hef stundum sagt að er mikið og gott plagg sem geymir mikið af upplýsingum, má m.a. finna úr könnun sem prófessor Stefán Ólafsson gerði að 69% íbúa sögðust vera óánægðir með verðlag og verslunaraðstæður á landsbyggðinni. Þetta er næsthæsti stuðull sem kemur strax á eftir húshitunarkostnaði.

Herra forseti. Eitt dæmi vil ég taka sem sýnir hvernig þetta er og það er hve þungaskatturinn hefur haft mikil áhrif til hækkunar flutningskostnaðar frá árinu 1998 en í þeim hækkunum og breytingum sem á þungaskattinum hafa verið gerðar í tíð núverandi ríkisstjórnarflokka hefur það leitt til þess að þungaskattur hefur hækkað um 45--50% á lengstu leiðum sem keyrðar eru, þ.e. frá Reykjavík og á Vestfirði eða austur á land. Þetta hefur auðvitað farið þráðbeint út í verðlagið og hækkað vöruverð.

Annar þáttur sem ég nefni er að kanna flutningskostnað og þá sérstaklega þungaskatt á rekstrarskilyrði og samkeppnishæfni atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Í greinargerðinni er rætt um og sýnt fram á þær breytingar sem hafa orðið vegna flutninga á þjóðvegum landsins en þar að auki hefur frá því að þetta var lagt fram orðið allmikil breyting á gjaldskrá vegna sjóflutninga í strandferðum með Eimskip, en eins og menn vita er Eimskipafélag Íslands eina fyrirtækið sem heldur enn þá uppi strandsiglingum við Ísland.

Í lok síðasta árs eða í nóvember/desember ákvað Eimskip að hækka upp- og útskipunargjöld vegna vöru í for- og áframflutningi með strandferðaskipi Eimskips. Fyrir flutning í gámum í útflutningi hefur það breyst þannig að sérstakt útskipunargjald, 2.050 kr., eru pr. tonn auk þess að framvegis verði innheimt tvöfalt vörugjald sem er rúmar 333 kr. á hvert tonn í hvorri höfn. Fram að þessu hafði Eimskip greitt annað gjaldið. Slík viðbótargjaldtaka sem hér var tekin upp lendir á öllum þeim stöðum þar sem ekki er útflutningshöfn, þ.e. það lendir ekki í Reykjavík, Eskifirði og Vestmannaeyjum. Samtals er þarna um að ræða tæpar 2.400 kr. á tonn sem í raun þýðir að það verður, svo tekið sé dæmi, um milljón kr. ódýrara að landa 400 tonna farmi úr frystitogara í Reykjavík en t.d. á Mið-Norðurlandi. Til viðbótar þessu hafa ýmis þjónustugjöld hækkað um tæp 10%.

Herra forseti. Þegar munurinn á þessu getur orðið eins og hér er bent á 1 millj. kr. í flutningskostnað fyrir viðkomandi hvort farminum er landað norður á landi eða á höfuðborgarsvæðinu, þá þarf auðvitað ekki að spyrja hvaða leið útgerðarfélagið velur. Síðan hefur það gerst að meira og meira af flutningi til og frá landsbyggðinni fer um þjóðvegi landsins og þar eru skipafélögin orðið mjög öflug og þar hefur hækkun orðið, eins og ég hef áður bent á, út af þungaskatti, olíuverði og öðrum þáttum. En nánast öllum innflutningi og útflutningi er stefnt til Reykjavíkur fyrst í nafni hagræðingar og síðan eru landsbyggðarfyrirtækin látin bera kostnaðinn af því að koma vörunni til og frá Reykjavík. Þetta er það sem landsbyggðarbúum og landsbyggðarfyrirtækjum er boðið upp á. Það má viðurkenna að einhver hagræðing var að því að stefna öllum inn- og útflutningi á einn punkt en þetta hefur síðan verið látið ganga þannig á viðskiptavinina að nú eru þessar tekjur sóttar út á land.

Herra forseti. Þetta tel ég að skekki mjög samkeppnishæfni atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni. Ég tel að þessi breyting á sjóflutningum fyrir þá sem flytja vörur til landsins og síðan út á land til framleiðslu og svo aftur hingað til höfuðborgarsvæðisins til endursölu sé að ganga af mörgum atvinnurekstrinum dauðum. Ég fullyrði að mjög margir forsvarsmenn atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni eru að gefast upp á þessum ofboðslega flutningskostnaði. Þess vegna er afar brýnt að farið sé í gegnum þessa þætti og skoðað hvað er til ráða.

[18:45]

Herra forseti. Það má benda á að á mjög mörgum sviðum í þjóðlífinu tíðkast jöfnunaraðgerðir. Nefna má t.d. að símkostnaður er sá sami um land allt. Það eru uppi jöfnunargreiðslur í sambandi við raforku. Til er Flutningsjöfnunarsjóður á sementi og olíu og við notum þungaskattskerfið til þess að greiða niður strætisvagnaakstur með því að 75% afsláttur er gefinn af þungaskatti. Ég tel, herra forseti, mörg dæmi styðja það að taka upp og skoða hvernig beita megi skattkerfinu í að jafna þennan aðstöðumun, jafna flutningskostnað og þar með jafna vöruverð og aðföng til atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni.

Herra forseti. Getur nokkur trúað því og hafa menn yfir höfuð gert sér grein fyrir að það kostar um 7,50 að flytja hvert kíló af vöru frá Reykjavík til Akureyrar? Svo tekið sé eitt staðbundið dæmi má nefna tveggja kílóa hveitipoka. Hann kostar 75 kr. norður á Akureyri. Af þessum 75 kr. eru 15 kr. í flutningskostnað. Þetta sýnir í hvaða óefni þetta er komið á þessum tímapunkti og vegna þessarar þungaskattsbreytingar hæstv. ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokka undanfarin ár þá hefur að sjálfsögðu komið miklu meira inn til ríkissjóðs í formi þungaskatts sem er svo að ganga af þessum atvinnurekstri á landsbyggðinni dauðum og íþyngir mjög.

Herra forseti. Því er ekki nema eðlilegt að fyrirtæki á landsbyggðinni rísi upp. Skemmst er frá því að segja að í nóvember sl. var haldinn stofnfundur Samtaka fyrirtækja á Norðurlandi sem m.a. hafa það að markmiði að berjast gegn þessari ranglátu gjaldskrá, beita sér gegn þeim ranglátu landsbyggðarsköttum sem ég hef hér gert að umtalsefni. Þetta eru ekkert annað en landsbyggðarskattar. Þessi samtök ætla að berjast fyrir því að fá niðurfellingu og breytingar á flug-, sjó- og landflutningum til og frá höfuðborgarsvæðinu. Þessi samtök ætla að berjast fyrir niðurfellingu tryggingagjalda á landsbyggðinni, hækkuðum persónuafslætti fyrir íbúa landsbyggðarinnar sem og afslætti á endurgreiðslu námslána.

Herra forseti. Evrópusambandið notar skattkerfið til að jafna lífskjör í Evrópu og jafna skil milli þeirra sem á landsbyggð búa og á viðkomandi þéttbýlis- eða höfuðborgarsvæðum. Þegar Norðmenn ákváðu að ganga ekki í Evrópusambandið þá tóku þeir upp töluverðan hluta af byggðastefnu Evrópusambandsins og gerðu að sinni. Herra forseti. Sem dæmi um jöfnunaraðgerðir Norðmanna --- þar sem jafnaðarmenn hafa farið með stjórn svo lengi sem elstu menn muna fyrir utan nokkur slæm íhaldsár --- þá er þungaskattskerfið notað þar til þess að jafna þennan flutningskostnað.

Herra forseti. Ég legg til að þessari þáltill. verði að lokinni þessari snöggu umræðu vísað til áframhaldandi vinnu í allshn.