Endurheimt Drekkingarhyls í Almannagjá

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 18:56:35 (3759)

2002-01-29 18:56:35# 127. lþ. 62.22 fundur 405. mál: #A endurheimt Drekkingarhyls í Almannagjá# þál., Flm. MÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[18:56]

Flm. (Mörður Árnason):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst þakka þá hagræðingu af hálfu forseta og hv. þingmanna sem hefur hér farið fram í minn hag og þessa máls.

Svæði á Íslandi eru með ýmsu móti. Sum þeirra eru ósnert náttúra. Önnur eru fullkomlega manngerð, t.d. þar sem við stöndum í þessari borg. Til eru líka svæði sem einkum eru náttúruleg en þar sem mannshöndin hefur þó komið að eða látið til sín taka frá upphafi landnáms á Íslandi.

Þingvellir eru eitt þeirra svæða og þá á þann hátt að í raun væri ekki hægt að ímynda sér Þingvelli án hvors tveggja, þeirrar náttúru sem þar er og þeirra verka sem mannshöndin hefur þar skapað. Ýmis ummerki mannshandarinnar eru fyrir löngu orðin hluti af Þingvöllum. Fyrst er þá að telja Öxarárfoss sem samkvæmt hinum elstu bókum íslenskum var búinn til með því að veita Öxará í gjána, sem áar okkar hinir elstu gerðu. Flest eru þessi ummerki annað hvort ákaflega vel heppnaður landslagsarkitektúr eða orðinn hluti af sögulegri helgi staðarins.

Svo er því miður ekki um öll verk þarna. Eitt af þeim er Drekkingarhylur eða breytingarnar sem gerðar hafa verið á Drekkingarhyl. Drekkingarhylur myndast þar sem áin Öxará fellur eftir gjánni eða réttara sagt í gjána því að hann er í raun nyrst í Almannagjá. Áin fellur síðan eða féll niður í fossi af gjárbarminum, fossi sem hefur nú aldrei haft sérstakt heiti. En í heimildum hefur hann helst verið kallaður Neðrifoss og þótti glæsilegur foss á sínum tíma.

Menn þekkja sögu Drekkingarhyls, þá að eftir stofnun Stóradóms síðari hluta 16. aldar var hann notaður í þáverandi þingstörfum við það þarfa verk, sem þá var talið af konungi og kirkju, að drekkja konum sem höfðu gerst sekar við kynlífsákvæði og fleiri ákvæði Stóradóms. Rannsóknir Páls Sigurðssonar lagaprófessors benda til þess að 18 konur hafi verið settar í hærusekk og drekkt á árunum 1600--1750, að mig minnir. Árið 1760 voru drekkingar lagðar af og áratugur rúmur leið frá Stóradómi þannig að þær gætu verið fleiri en 18. En þær voru það að minnsta kosti.

[19:00]

Auk þess, þótt það komi þessu máli ekki við, var konum drekkt í öðrum hyljum annars staðar á landinu, þá einkum þeim sem minni voru máttar og þóttu ómerkilegar.

Til þess að drekkja fólki þarf náttúrlega svolítinn hyl jafnvel þó að fólk sé sett í hærusekk, og Drekkingarhylur bar nafn með rentu til ársins 1911. Þar var töluverður hylur með iðuköstum áður en vatnið fór í þessum fagra Neðrifossi sem þótti. Árið 1897 var lögð trébrú yfir fossbrúnina. Hylinn sakaði hins vegar ekki fyrr en á árinu 1911 að trébrúin var tekin af og ákveðið að leggja þarna steinbrú. Þá voru komnir þeir miklu framfaratímar með ungmennafélagsanda og framkvæmdagleði sem marka má af þeirri tilvitnun hæstv. forsrh. í áramótaávarpi sínu í kvæði Hannesar Hafsteins að

  • þótt þjaki böl með þungum hramm
  • þrátt fyrir allt þú skalt, þú skalt samt fram
  • og þyrfti helst að syngja þetta til að gefa því sitt pláss. (Gripið fram í: Gerðu það.) Ja, þetta er karlakórslag þannig að ég treysti mér ekki til þess að fara að ábendingu hv. þm. um þann flutning.

    En það fylgdi líka þessari öld að hún var nokkru fyrir tíma umhverfismats og skipti litlu máli hvað fyrir varð ef menn þóttust hafa kraft til mikilla verka. Við þessa brúargerð var allmikið af gjárhaftinu sprengt í loft upp með dýnamíti og var þá burtu í senn fossbrúnin og hylbarmurinn, vatnsborð hylsins lækkaði þar með og Neðrifossinn fagri breyttist í flúð sem þar er enn. Síðan var bætt um betur og hvarf enn meira af snösinni.

    Ekki er hægt að endurheimta forna tíma eða endurskapa náttúru sem hreyft hefur verið við. Hins vegar getum við bætt skaðann, og á stöðum eins og Þingvöllum á okkar kynslóð að leggja sitt af mörkum til að prýkka staðinn og viðhalda hans sögulegu helgi og hans náttúrulega unaði. Það hefur Björn Th. Björnsson listfræðingur lagt til í sinni góðu bók um Þingvelli, ,,Þingvellir, staðir og leiðir``, frá 1984, en eftir að hafa sagt okkur það að þessi brú sé einhver hin ófegursta sem um getur leggur hann til í bók sinni þetta hér, með leyfi forseta:

    ,,Brú þessa verður að fjarlægja, en leggja í stað yfir svipfallega göngubrú, og hækka þarf árhaftið, svo hvorttveggja, hylur og foss, heimti aftur sinn forna svip.``

    Það er þetta sem við flutningsmenn, ég og hv. þm. Karl Valgarður Matthíasson, leggjum til að kannað verði, hvort hægt sé að fara að ábendingu Björns Th. Björnssonar, hins merka listfræðings, um þetta mál. Við teljum líka að ef af þessari framkvæmd verður sé athugandi og rétt að helga hana minningu þeirra kvenna sem örlögum sínum mættu í þessum hyl.

    Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu gangi málið til hv. umhvn.