Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að draga úr verðbólgu

Miðvikudaginn 30. janúar 2002, kl. 13:34:47 (3765)

2002-01-30 13:34:47# 127. lþ. 63.91 fundur 285#B aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að draga úr verðbólgu# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 127. lþ.

[13:34]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það var reyndar ekki svo að ríkisstjórnin þyrfti að fá kröfur verkalýðshreyfingarinnar til að fara af stað. Eins og kunnugt er þegar verkalýðshreyfingin kom á fund með okkur hafði ríkisstjórnin þegar ákveðið á fundi sínum deginum fyrr að fara ofan í þær hækkanir sem höfðu átt sér stað og síðan þegar Alþýðusambandsforustan átti fund með okkur, ágætan fund, þar sem þeir ítrekuðu að þeir væntu þess að þær hækkanir sem mætti rekja til ríkisins yrðu dregnar til baka að verulegu leyti, þá var þeim sagt að þegar hefði verið stigið skref til að undirbúa það og vilji stendur til þess.

Eins og menn vita hækkaði vísitalan um 0,9% og þar af mátti rekja hækkun til ríkisins upp á 0,16%, hækkanir sveitarfélaganna upp á 0,11%. Við mælum það svo að að koma til móts við þetta upp á 0,14--0,16% kosti ríkið milli 500--700 millj. kr. Mér sýnist því ekki að 15--20 millj. kr. hjá Reykjavíkurlistanum sem hv. þm. nefndi sérstaklega af einhverjum ástæðum vegi þungt eða skipti nokkru, nema þá kannski einhverjum áróðri því að sveitarfélögin hækkuðu um 0,11%, ríkið 0,16% þannig að á þessu er lítill munur. Tillögur okkar verða tilbúnar á morgun og verða afgreiddar þá og komast til skjala og munu virka í hvívetna gagnvart mælingu á vísitölunni.