Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 30. janúar 2002, kl. 14:18:32 (3781)

2002-01-30 14:18:32# 127. lþ. 65.1 fundur 425. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar með dagatakmörkunum) frv. 3/2002, Frsm. meiri hluta EKG
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 127. lþ.

[14:18]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta sjútvn. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 38 frá 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, á þskj. 696.

Með þeim breytingum sem voru gerðar á lögunum um stjórn fiskveiða sem tóku til smábáta skömmu fyrir síðustu jól var brugðist við þeim tekjusamdrætti sem var fyrirsjáanlegur hjá bátum sem róa í svokölluðu krókaaflamarki. Þessar breytingar snerta hins vegar í meginatriðum ekki aðra hluta smábátaflotans. Það kom fram í áliti meiri hluta sjútvn. þá að við höfðum hugað nokkuð að málefnum svokallaðra dagabáta við þessar aðstæður og töldum mjög mikilvægt að betri grundvöllur fyndist fyrir rekstur þeirra báta og sögðum í nál. eitthvað á þá leið að slíkt yrði að vera komið fyrir 1. feb. nk.

Hæstv. sjútvrh. hefur lagt fram frv. sem hér er til umfjöllunar þar sem einmitt er verið að taka á þessum málum. Með þessu frv. má segja að verið sé að taka á málunum með ferns konar hætti.

Í fyrsta lagi er verið að leggja til að sóknardagarnir verði á þessu fiskveiðiári 23 en ekki 21 eins og lögin höfðu gert ráð fyrir. Ástæðan er m.a. sú að verið er að taka upp nýtt kerfi, og það er kannski mál nr. tvö í þessum efnum, nýtt kerfi til þess að mæla sóknareiningarnar. Eins og við vitum er sóknareiningin í dag sólarhringur, 24 tímar, en þetta frv. gerir ráð fyrir að horfið verði frá því og sóknareiningin verði klukkustund. Til þess að menn átti sig síðan á hvaða breytingar það hefur í för með sér fyrir sóknarþungann verður að vera hægt að mæla þetta nákvæmlega og þá verða menn auðvitað að hafa til viðmiðunar jafnmarga daga og voru í fyrra. Forsendan fyrir þessu er, eins og menn vita, að tilkynningarskyldukerfið verði tekið upp sem mælitæki í þessum efnum þannig að nú á það að liggja fyrir mjög nákvæmlega hver sóknin er hjá þessum bátum. Það hefur verið nokkur ágreiningur um það hver nýtingin á sóknardögunum hefur verið. Menn hafa verið með hugmyndir um að hún sé allt upp í 100% --- við skulum ekki fara hærra en það --- eða talsvert minni. Raunveruleikinn í nýtingunni kemur ekki í ljós nema hún verði mæld með sjálfvirkum hætti eins og verið er að leggja til með því að taka upp þessa tengingu við tilkynningarskyldukerfið.

Í þriðja lagi er verið að leggja til breytingu sem felur það í sér að tekið er að hluta til, að hálfu leyti skulum við segja, úr sambandi það kerfi sem gat falið í sér ýmist minnkun eða aukningu á sóknardagafjölda. Ef eigandi báts kaus að leggja stærri bát og kaupa minni þýddi það það að hann fékk fleiri sóknardaga sem hlutfall af þeirri stærðarminnkun sem átti sér stað og á sama veg verkaði það þegar eigandi báts seldi lítinn bát eða tók úr notkun lítinn bát og keypti stóran bát, þá fækkaði sóknardögunum. Það var auðvitað lógík fyrir þessu ákvæði vegna þess að menn litu svo á að sóknarþunginn ykist í réttu hlutfalli við stærð bátsins og þess vegna voru sóknareiningarnar á vissan hátt metnar með tilliti til stærðar bátsins.

Það kom hins vegar á daginn að menn nýttu sér þetta lógíska ákvæði laganna til að gera hluti sem menn sáu auðvitað að höfðu skelfinguna í för með sér, þ.e. menn voru að minnka bátana niður í nánast ekki neitt, gera þá að hálfgerðum kollum sem líktust varla bátum, og fá þannig út fjölda sóknardaga. Þetta hefði að lokum auðvitað leitt til þess að kerfið hefði sprungið og það er verið að bregðast við því. Þess vegna er m.a. nauðsynlegt að málið fái þessa hröðu afgreiðslu sem það hefur fengið í góðu samkomulagi í þinginu.

Ég vil aðeins í þessu sambandi lesa og fara yfir texta nál. að þessu leytinu þar sem segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

Í þriðja lagi er lagt til að felld verði brott regla laganna um að flutningur sóknardaga yfir á minni báta leiði til fjölgunar daganna. Þessi breyting hefur ekki áhrif á þá aðila sem fyrir gildistöku laganna hafa flutt sóknardaga frá stærri bátum til minni, enda njóta þeir núgildandi ákvæða laganna um fjölgun sóknardaga. Skilyrði þess að dagar verði fluttir með þessum hætti milli báta er að báturinn, sem dagarnir eru fluttir til, hafi fengið leyfi til veiða í atvinnuskyni fyrir gildistöku laganna, en veiðileyfi er ekki gefið út fyrr en gefið hefur verið út haffærisskírteini fyrir viðkomandi bát. Flutningur sóknardaga eftir gildistöku laganna leiðir því ekki til fjölgunar sóknardaga.

Í fjórða og síðasta lagi er í frumvarpinu að finna það nýmæli að ráðherra er gert að setja nánari reglur um flutning sóknardaga milli báta í eigu sömu aðila.

Meiri hlutinn leggur til eina breytingu á frv. sem lýtur einmitt að þessari reglugerðarheimild, og henni er ætlað að afmarka betur heimild ráðherrans til reglugerðarsetningar vegna flutnings sóknardaga milli báta í eigu sömu aðila.

Það er enginn vafi á því að þessar breytingar almennt talað eru mjög til bóta fyrir dagabátana í heild og smábátakerfið. Áralöng barátta smábátasjómanna hefur lotið að því að fá viðurkennda sóknareininguna, klukkustundir í stað daga, og fyrir því eru auðvitað margvísleg rök, t.d. þau sem lúta að öryggi manna. Það eru líka rök sem lúta að bættri meðferð afla og síðast en ekki síst er þetta ómanneskjulegt kerfi, eins og margoft hefur komið fram og hæstv. sjútvrh. hefur stundum haft orð á, menn nánast píndir til að standa í 24 tíma, og við sjáum einfaldlega að þetta er ekki bjóðandi nokkrum manni. Menn reyna auðvitað að nýta sóknareiningarnar sínar eins og þeir geta, eru þá úti í 24 tíma og við svo búið getur ekki staðið mjög lengi. Þetta er auðvitað ekki nema fyrir allra hraustustu menn og þetta færakerfi sem við erum þarna með, sumarkerfi getum við sagt, handfæra- og sumarkerfi sem þetta er, hefur í rauninni þess vegna hætt að þjóna þeim tilgangi sem við viljum m.a. að þetta kerfi þjóni, að það geti hentað mörgum, ekki bara allra hraustustu og yngstu mönnunum í þessum flota. Það eru þannig mjög mörg rök fyrir því að gera þetta með þessum hætti og ég held að um það sé í sjálfu sér mikil samstaða.

Menn hafa dálítið velt fyrir sér hver áhrifin af breytingunum verði á afla þessara báta. Það var athyglisvert að í umfjöllun nefndarinnar komu fram gagnstæð sjónarmið í þessum efnum. Annars vegar er það skoðun framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda að þetta mundi ekki leiða til aukins afla, m.a. vegna þess að við erum að skrúfa fyrir möguleikana á því að menn sæki sér fleiri sóknardaga með því að minnka bátana, en líka vegna þess að þetta verði til þess --- og á það hafa fleiri bent, m.a. hv. 4. þm. Vestf. --- að menn muni fara fleiri sjóferðir þannig að það fari auðvitað tími í að sigla úr höfn og til hafnar og þess vegna sé alls ekki víst að þetta muni leiða til aukinnar sóknar eða aukins afla. Um þetta vitum við auðvitað ekki nákvæmlega. Framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna lét í ljósi þá skoðun sína að þetta mundi leiða til mjög mikillar aukinnar sóknar. Ég hallast þó frekar á sveif með framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda og er þeirrar skoðunar að áhrifin á veiðina verði ekki mikil og geti jafnvel dregið úr henni. En þetta verður auðvitað bara tíminn að leiða í ljós. Ég held að mjög mikilvægt sé að létta af þessari pressu sem hefur verið í kerfinu, og það ætti að öllu jöfnu að leiða til heldur minni og skaplegri sóknar.

Virðulegi forseti. Hér er auðvitað um að ræða fiskveiðistjórnarkerfi sem snertir býsna marga báta. Það snertir svokallaða dagabáta og þeir eru, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk í sjútvrn. áðan, 218 talsins og síðan er gert ráð fyrir því að svokallaðir þakbátar, þ.e. bátar sem máttu veiða tiltekið magn tonna á tilteknum fjölda daga, megi velja sig þarna inn í þetta kerfi. Þeir geta allt eins valið sig inn í krókaaflamarkskerfið en mér finnst ekki ólíklegt miðað við þær upplýsingar sem ég hef að mikill meiri hluti þeirra muni fara inn í þetta dagakerfi. Með þeim breytingum sem við gerðum á lögunum fyrir áramótin var gert ráð fyrir því að þeir hefðu tíma til 15. feb. til að taka ákvörðun og þess vegna er mjög mikilvægt að við getum einmitt núna sem allra fyrst gengið frá lögunum, af þeim ástæðum líka að menn hafi þá svigrúm og átti sig á því hvaða kostir séu í boði, hvaða stöðu menn séu í og hvað þeir geti þess vegna haft um að velja.

Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Þetta er mál sem ég held að mörgum hafi létt við að komst til heillar hafnar. Það var kvíði í mjög mörgum yfir þessu kerfi eins og það hefur verið og áhugi mjög margra, bæði eigenda þessara báta og margra annarra, er að finna á málinu bærilega lausn. Það tókst í þessu samkomulagi sem varð á milli Landssambands smábátaeigenda og sjútvrn. og er grundvöllurinn að þessu frv. Ég fagna því og er ekki í nokkrum vafa um það raunar að þegar þetta frv. verði að lögum muni það efla og styrkja þennan þátt smábátaútgerðarinnar sem skiptir svo miklu máli fyrir okkur í landinu í heild.