Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 30. janúar 2002, kl. 14:52:31 (3786)

2002-01-30 14:52:31# 127. lþ. 65.1 fundur 425. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar með dagatakmörkunum) frv. 3/2002, KVM
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 127. lþ.

[14:52]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Fram hefur komið í umræðunni að útgerðarmenn og sjómenn þeirra báta sem reru í dagakerfinu hafi oft búið við það að leggja á djúpið og hefja veiðar en síðan hafi veður skyndilega versnað og þeir þurft að snúa við eftir þrjá, fjóra tíma. Þeir sem til þekkja vita að það gengur ekki upp ef margir slíkir dagar detta út og fiskur veiðist náttúrlega ekki fyrir þær sakir. Þess vegna er þetta góð breyting sem komið hefur fram í frv. hæstv. sjútvrh. Hún er líka í samræmi við brtt. sem komu fram í þessum málum fyrir jól. Ég lýsi ánægju minni með það og sérstaklega ákvæðið í sambandi við klukkustundirnar.

Hins vegar má alltaf setja fram spurningar um sölu á dögum og að þetta kerfi skuli vera svona opið. Og að þeir sem eru að selja veiðiheimildir eða daga skuli fá það í eigin vasa í staðinn fyrir að þeir skili þeim dögum, þessum veiðistundum eða veiðiheimildum, og að þær verði settar á markað og þá fái fleiri að bjóða í heldur en þeir sem eru eingöngu í þessu.

Herra forseti. Þetta eru góðar breytingar og mér líst vel á þær. Ég vona að þær eigi eftir að koma þessum flokki smábáta til góða. En hversu lengi þær verða látnar gilda er vandi að spá um, því gert er ráð fyrir að nýtt frv. til laga um stjórn fiskveiða verði lagt fram á þessu vorþingi.