Sala Landssímans

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 10:32:22 (3788)

2002-01-31 10:32:22# 127. lþ. 66.92 fundur 299#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 127. lþ.

[10:32]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Í gær í umræðu utan dagskrár um málefni Símans gerðust þau tíðindi að tveir forustumenn Framsfl. á hinu háa Alþingi, hv. þm. Magnús Stefánsson sem raunar er einnig varaformaður stjórnar Símans og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, formaður þingflokks Framsfl., lýstu þeim viðhorfum sínum yfir og sögðu beinlínis að fullt tilefni væri til þess að endurskoða áform um sölu Símans miðað við núverandi aðstæður og alla stöðu mála í viðræðum við Tele Danmark. Í umræðunni svaraði samgrh. litlu um þessar breyttu aðstæður og tók upp hefðbundið nagg við stjórnarandstöðuna. Hann sagði þó að ríkisstjórnin mundi halda sínu striki. Ég spyr, herra forseti: Og hvað svo?

Það er algerlega óviðunandi að skilja málið eftir með þessum hætti á hinu háa Alþingi. Enda þótt rétt sé að þingið hafi þegar samþykkt heimild til ráðherrans um sölu Símans hefur þingið stjórnarskrárbundið hlutverk hvað varðar eftirlit og það er ekki einkamál hæstv. ráðherra samgöngumála né Sjálfstfl. hvernig farið er með þessa milljarðatuga þjóðareign. Því spyr ég hæstv. samgrh. hvort hann hyggist bókstaflega ganga fram hjá þessum breyttu viðhorfum samstarfsflokksins, hafa þau að engu og láta sem ekkert hafi hér verið sagt.

Enn fremur er óhjákvæmilegt beina þeim spurningum til varaformanns Framsfl. og raunar formanns flokksins sem er í húsinu, veit ég, í hliðarsal, hvernig flokkurinn ætli að halda þessum viðhorfum sínum uppi innan ríkisstjórnarsamstarfsins eða hvort þessir tveir þingmenn hafi verið að lýsa sínum prívatskoðunum, sem ég neita að trúa, þessir lykilmenn flokksins, og hvort og hvernig Framsfl. ætli að halda þessum breyttu viðhorfum sínum um endurmat á söluferli Símans til haga innan ríkisstjórnarsamstarfsins.

Herra forseti. Ég heyrði í útvarpinu í gær að viðræður við Tele Danmark, þennan kjölfestufjárfesti sem menn hafa bundið trúss sitt við, hafi legið niðri um hálfsmánaðar skeið. Það er ráðrúm og það er svigrúm til þess að taka mið af gjörbreyttum aðstæðum eins og hér hefur verið lýst. Því hljótum við að vilja skýr svör við því á hinu háa Alþingi, enga útúrdúra og ekkert undanhald í þeim efnum, hvernig ríkisstjórnin ætlar að halda á spilum í þessu stóra máli þjóðarinnar. Því kem ég nú upp í upphafi þessa fundar og vil skýr svör við þessu. Ef þau fást ekki hljótum við samfylkingarþingmenn að velta því fyrir okkur hvort Alþingi þurfi þá ekki að taka málið formlega upp í ljósi þessara gjörbreyttu pólitísku aðstæðna og hinna gjörbreyttu kringumstæðna við söluferli Símans.