Sala Landssímans

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 10:35:23 (3789)

2002-01-31 10:35:23# 127. lþ. 66.92 fundur 299#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 127. lþ.

[10:35]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að nokkuð ankannalegt er að taka þessa umræðu upp undir liðnum Athugasemdir um störf þingsins. Engu að síður hef ég heyrt hvað hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hefur fram að færa. Hann kallar eftir því hvort ég sem samgrh. telji tilefni til þess að gera breytingar á þeim áformum og ganga til baka í því verki sem við vinnum núna að, þ.e. sölu á hlutum í Símanum. Hann vitnaði til tveggja hv. þingmanna Framsfl. sem töluðu hér í gær.

Eins og fram kom í ræðu þeirra hv. þm. þá höfðu þeir ekki neitt í höndum efnislega sem gaf tilefni til þess að hætta bæri við áform um sölu Símans. Ég hef sagt afar skýrt að við göngum til þessara viðræðna við hugsanlega kaupendur á hlut í Símanum af fullum styrk þess sem á Símann og gefum ekki nokkurt einasta færi á því að gefa til kynna að við séum tilbúnir til þess að selja hlutina í Símanum á einhverju undirverði. Enginn þarf að hafa áhyggjur af því. Við vinnum þetta eftir vinnulagi og þeim áformum og áætlunum sem við höfum gert. Einkavæðingarnefndin hefur unnið afskaplega vel að þessu máli og engin ástæða er til þess að láta í veðri vaka að tilefni sé til þess að tilkynna að við séum hættir við. Það er ekki þannig. Við vinnum eðlilega að þessu eins og ég hef margítrekað og undirstrikað og við erum ekki að ganga fram hjá neinum breyttum viðhorfum stjórnarflokkanna. Stjórnarflokkarnir hafa lagt þær línur sem ríkisstjórnin vinnur eftir hvað varðar þessa einkavæðingu og það er ekki tilefni til þess fyrir hv. þingmenn Samfylkingarinnar að gera ráð fyrir að eftir öðrum línum verði unnið.

Auðvitað þurfum við, eins og í öllum okkar verkum, að líta til allra átta, gá til veðurs hverju sinni áður en næsta skref er stigið. Ég er alveg sannfærður um að hv. þingmenn Framsfl. leggja sams konar mat á stöðuna og ég, þ.e. að við þurfum fyrst og fremst að hugsa um hagsmuni eigandans og hagsmuni notenda fjarskiptaþjónustunnar á Íslandi.