Sala Landssímans

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 10:41:49 (3790)

2002-01-31 10:41:49# 127. lþ. 66.92 fundur 299#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 127. lþ.

[10:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Sú umræða sem hv. þm. Jón Bjarnason hóf í gær utan dagskrár um sölu Landssímans fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs var að því leyti merkileg að hún leiddi í ljós að orðnar eru umtalsverðar innantökur í Framsfl. og hafa kannski lengi verið í þessu máli. Engu að síður stendur málið formlega séð þannig að sala Landssímans stendur yfir eða fer fram um þessar mundir eftir því sem við verður komið á fulla pólitíska ábyrgð Framsfl. og þannig er það auðvitað þangað til það breytist.

Orð þingmanna Framsfl. í gær gáfu vissulega vonir um að einhverra veðrabrigða kynni að vera von og Framsfl. væri að hverfa á nýjan leik frá stuðningi sínum við einkavæðingu Landssímans á forsendum Sjálfstfl. En þangað til annað kemur í ljós, því miður verður að segja, virðist samgrh. ætla að fara sínu fram þó allar aðstæður málsins kalli auðvitað á að menn endurmeti stöðuna og það hafa þær lengi gert. Um margra mánaða skeið hefur verið ljóst að þetta mál væri í upplausn og skynsamlegast væri að hætta við.

Því miður fór það svo í gær í umræðunni hvað varðar svör samgrh., herra forseti, ...

(Forseti (GuðjG): Samkvæmt klukkunni er tíminn búinn.)

Ég held að rauða ljósið hafi logað allan tímann, forseti. Einhver mistök hafa orðið. Ég held að ég sé varla búinn að tala nema í eina mínútu eða svo. (Gripið fram í.)

(Forseti (GuðjG): Af örlæti mínu bæti ég við einni mínútu.)

Ég hélt kannski að forseti vildi bara láta mig tala á rauðu ljósi en ...

(Forseti (GuðjG): Það fer nú vel á því.)

Það fór svo, herra forseti, því miður, í umræðunum í gær að samgrh. gaf engar vonir um að hann væri að bæta ráð sitt og sjá að sér. Þess vegna gripum við til þess ráðs, þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að fara fram á það við ríkisendurskoðanda að gerð verði rækileg úttekt á framgöngu einkavæðingarnefndar í tengslum við einkavæðingu Landssímans sérstaklega og samkvæmt venju verður það bréf nú væntanlega sent af hálfu forsætisnefndar þingsins til Ríkisendurskoðunar og þessi skoðun fer í gang. Öll efni standa því til þess, herra forseti, að á meðan þessi athugun Ríkisendurskoðunar stendur yfir aðhafist ríkisstjórnin ekki frekar í málinu. Það væri strax áfangi í sjálfu sér ef menn gætu orðið ásáttir um að setja málið í bið á meðan. Að sjálfsögðu er hægt að láta á það reyna á Alþingi með tillögu sem fæli í sér ákvörðun Alþingis eða ályktun um að söluáformin skyldu sett á ís. Vel má athuga það mál. En langhyggilegast væri af hæstv. ráðherra og ríkisstjórninni eins og allt er í pottinn búið að leggja það af mörkum til sátta í þessu máli að áformunum yrði slegið á frest.