Almannatryggingar o.fl.

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 11:36:51 (3801)

2002-01-31 11:36:51# 127. lþ. 67.6 fundur 359. mál: #A almannatryggingar o.fl.# (tekjuhugtak, bótaútreikningur o.fl.) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[11:36]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um breyting á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um málefni aldraðra og lögum um heilbrigðisþjónustu og sóttvarnalögum.

Hæstv. ráðherra hefur gert ágæta grein fyrir því hvað felst í þessum lögum. Ég verð að segja að hér er greinilega á ferðinni ágætistiltekt í þessum lagabálkum, þó aðallega í almannatryggingalögunum, og vildi ég kannski líkja þessu við einhvers konar vorhreingerningu hjá hæstv. ráðherra. Hér er verið að færa til betri vegar ýmislegt sem hefur verið gagnrýnt harðlega í þessum lögum og hefði fyrir löngu mátt fara betur eins og ýmis þau atriði sem hæstv. ráðherra taldi upp.

Í framsögunni kom fram að ekki væri um aukna gjaldtöku að ræða og fagna ég því enda er nóg komið af aukinni gjaldtöku. Við erum nýgengin í gegnum ýmsar breytingar sem hafa aukið álögur á þá sem eru veikir eða þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda þannig að ég fagna því að ekki skuli vera nein aukin gjaldtaka hér.

Ég vil nefna nokkur atriði sem ég tel ástæðu til að geta um við 1. umr. Fyrst er til að taka 1. gr. þar sem verið er að tryggja að námsmaður sé áfram tryggður í almannatryggingum hér á landi ef hann er ekki tryggður í námslandinu. Þetta er orðin nokkuð tímabær breyting því að allnokkrar breytingar hafa verið gerðar á lögum, t.d. á Norðurlöndum og í fleiri Evrópulöndum, þar sem námsmenn sem flytja, og þurfa jafnvel að flytja lögheimili sitt, þurfa að bíða eftir tryggingu í dvalarlandinu. Eru nokkur dæmi um að t.d. fólk sem hefur farið utan til náms hefur jafnvel ekki átt rétt á fæðingarorlofsgreiðslum og ýmsum greiðslum vegna þessa. Ég spyr hæstv. ráðherra vegna þessara breytinga --- sem ég fagna --- hvort það verði skoðað eitthvað aftur í tímann. Auðvitað veit ég að lög verða ekki afturvirk en ég veit þess dæmi að fólk hefur farið illa út úr því að þessi breyting hefur ekki verið gerð fyrr, og hefði gjarnan viljað heyra það frá hæstv. ráðherra. Það eru nokkrir foreldrar sem hafa orðið af t.d. fæðingarorlofsgreiðslum vegna þessa.

Einnig hefði ég viljað heyra frá hæstv. ráðherra hvort einhver áform séu uppi um breytingar á fæðingarorlofslöggjöfinni. Þó að hún heyri ekki beint undir heilbrrh. fer hún til afgreiðslu í gegnum Tryggingastofnun ríkisins og nú þegar hafa komið upp nokkur mál sem ég verð að segja að hafa lent illa á t.d. mæðrum fyrirbura, og ákveðin atriði í þeirri löggjöf þyrfti að skoða nánar og leiðrétta því að það er óréttlæti sem felst í hinni nýju löggjöf um fæðingarorlofið. E.t.v. ætti að bera þá spurningu frekar upp við hæstv. félmrh. Vegna þess að þetta gengur í gegnum Tryggingastofnun og a.m.k. tvö mál hafa komið til úrskurðar hjá úrskurðarnefnd tel ég engu að síður ástæðu til að vekja athygli ráðherrans á þessu og spyrja eftir því hvort eitthvað sé verið að skoða þau mál.

Aðrar breytingar sem þetta frv. felur í sér eru að tekjuhugtakið er skilgreint nánar og tel ég að það sé vel. Síðan segir í athugasemdum með frv.:

,,Gert er ráð fyrir að tekjugrundvöllur bótaútreiknings sé endurskoðaður með vélrænni samkeyrslu og lokauppgjör fari fram einu sinni á ári.``

Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Tryggingastofnun taldi mjög mikilvægt að endurnýja tölvukost sinn. Það kom fram fyrir fjárlagaumræðuna í vetur. Er Tryggingastofnun fær um að fara eftir þessum lögum þar sem ekki komu fjárveitingar til að endurbæta tölvubúnað Tryggingastofnunar núna á síðustu fjárlögum?

Annað sem er nýmæli hér, og er mjög vel, er að lögð er skylda á Tryggingastofnun ríkisins að upplýsa umsækjendur eða bótaþega um forsendur bótaútreiknings og gefa þeim kost á að koma að athugasemdum. Nú vitum við að þetta er orðið ákaflega flókið. Sérstök regla gildir um útreikning hvers bótaflokks. Þetta eru 5--6 bótaflokkar og allir með sérstaka reglu. Ég veit að mörgum starfsmanninum hefur reynst ansi snúið að reikna þetta allt saman út og hvað þá þeim sem fá greiðslurnar að skilja hvernig þetta er allt reiknað. Ég spyr hvort eitthvað verði gert í því að þjálfa fólk bæði í umboðunum úti um land og í Tryggingastofnun til að sinna þessu hlutverki og hvort uppi séu einhver áform um að einfalda þessa útreikninga þannig að fólki sé ljósara hvernig þær greiðslur sem það fær frá stofnuninni eru reiknaðar út. En vissulega fagna ég því að það eigi að upplýsa umsækjendur bótaþega betur um hvernig þetta er reiknað út.

Síðan er hér ákvæði um þagmælsku starfsfólks Tryggingastofnunar. Það er mjög gott að þetta er komið í lög, ekki það að fólk sem starfar hjá Tryggingastofnun gæti ekki þagmælsku um málefni en ákvæðið þarf auðvitað að vera í lögum, það þarf að vera ljóst að fólki ber að gæta þagmælsku um það sem það er að vinna við þar sem efni og gögn innan stofnunar eru oft um ákaflega viðkvæm mál.

Ég vil líka lýsa því yfir að það er orðið tímabært að setja ákveðnar reglur um ofgreiddar tekjutengdar bætur og hvernig þær eru síðan teknar til baka. Það var algjörlega óviðunandi hvernig staðið var að því í mörgum tilfellum. Fólk stóð mjög illa eftir þegar búið var að taka til baka fjármuni, bætur sem höfðu verið ofgreiddar, og fékk síðan kannski engar eða litlar greiðslur mánuðum saman eins og dæmi eru um. Síðan eru ákveðnar reglur um hvort menn greiða vexti eða ekki, og að Tryggingastofnun beri að greiða vexti vegna vangreiddra bóta. Þetta hefur mörgum lífeyrisþeganum sviðið og þeir hafa margsinnis kvartað við mig yfir því að Tryggingastofnun hefur ekki talið sér skylt að greiða vexti af vangreiddum bótum.

[11:45]

Ég tel líka jákvætt að reglugerðin um örorkustyrkinn er sett inn í lögin. Ég tel að hún eigi heima þar. Síðan verð ég að nefna eitt atriði sem ég tel vera löngu tímabært að breyta og er breyting á, þ.e. reglan um að lífeyrir og bætur honum tengdar falli ekki niður fyrr en eftir sex mánaða dvöl á undanförnum 12 mánuðum. Þessi regla, 24 mánaða reglan og fjögurra mánaða dvölin, hefur bitnað mjög illa á mörgum og er að mörgu leyti mjög óréttlát vegna þess að margir þeirra sem þurfa að vera í nokkra mánuði á tveim árum inni á sjúkrastofnun eru auðvitað að reka heimili úti í bæ og þurfa að hafa sínar tekjur til að greiða húsaleigu eða önnur gjöld sem falla til við rekstur heimilis. Oft kom þessi regla bæði öryrkjum og öldruðum mjög illa þannig að ég tel mjög til bóta að rýmka þessa reglu um sex mánaða dvöl undanfarna tólf mánuði.

Ég spyr: Eru ekki einhver undanþáguákvæði inni í þessu vegna þess að við vitum að fólk getur lent í mjög alvarlegum veikindum í lengri tíma en sex mánuði --- ég og sjálfsagt við öll þekkjum dæmi um það --- og þurfa að vera inni á sjúkrastofnunum bæði í læknismeðferð og endurhæfingu, og síðan veikist fólk aftur. Ég þekki dæmi um slíkt þar sem fólk hefur fengið hjartaáfall og heilablóðfall o.s.frv. og þetta hefur kannski verið margra mánaða sjúkrahúsdvöl.

Því spyr ég hvort þarna sé einhver rýmkun eða undanþáguákvæði sem hægt sé að vísa til ef staðan er sú að lífeyrisþegi sem lendir í þessu, lendir inni á sjúkrastofnun lengur en sex mánuði á tólf mánaða tímabili og er engu að síður að reka heimili, þ.e. að hann geti þá fengið undanþágu því við vitum að enginn heldur uppi heimilisrekstri af vasapeningum eins og þeir eru skammarlega lágir. Hefði ég nú kannski haldið að í þessum ágætu hreingerningum hæstv. ráðherra kæmu einhverjar breytingar á vasapeningunum og sjúkradagpeningunum þannig að menn sæju ástæðu til þess að hækka greiðslurnar og breyta tekjutengingunum sem snúa að þeim.

Ég fagna líka þeirri breytingu sem felst í því að vistunarframlagið rennur til stofnunar beint. Það hefur reynst mörgum lífeyrisþegum erfitt þegar þeir hafa verið að fá mjög háar tekjur sem þeir hafa nánast aldrei séð. Þetta á auðvitað að renna beint til þeirra stofnana sem þeir dvelja á. Er þetta bæði vistmanninum mikið hagræði og sjálfsagt einnig stofnununum sem þeir dvelja á og Tryggingastofnun.

Síðan er í þessu frv. um breyting á þessum fimm lögum gert ráð fyrir að ákvæði reglugerða komi inn í lögin. Ég hef verið fylgjandi því að sem mest af slíkum ákvæðum skuli vera í lögum þannig að vilji löggjafans sé skýr í þeim efnum. Ég tel sem sagt að þetta sé bara að öllu leyti hin þarfasta hreingerning á lögunum hjá hæstv. ráðherra.

Við munum fara rækilega yfir þetta í heilbr.- og trn. þegar málið kemur núna til kasta hennar og skoða alla þessa þætti. Eins og menn sjá þegar þeir lesa frv. yfir þá eru nú margar tilvísanir í lagagreinar og lagabálka sem þarf að skoða miklu nánar en við gerum nú við 1. umr. Ég verð eiginlega samt að segja að ég harma að ekki skuli hafa verið gerð algjör endurskoðun á almannatryggingunum því að frá 1971 þegar þessi lög voru fyrst sett, en þau eru að grunni til frá 1971 eins og við vitum, hafa verið gerðar á þeim mörg hundruð breytingar og þær oft án þess að horft sé til laganna í heild. Nú er enn verið að gera allmargar til viðbótar og það tel ég ljóð á þessu öllu saman að við skulum ekki skoða almannatryggingalögin í heild sinni og breyta þeim og koma með ný almannatryggingalög. En þessar breytingar, þó að enn sé verið að breyta, eru yfirleitt engu að síður allar til bóta og löngu tímabærar.