Almannatryggingar o.fl.

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 11:53:30 (3803)

2002-01-31 11:53:30# 127. lþ. 67.6 fundur 359. mál: #A almannatryggingar o.fl.# (tekjuhugtak, bótaútreikningur o.fl.) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[11:53]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. ræðumönnum sem hafa tekið til máls fyrir jákvæðar undirtektir við frv. Að sönnu er rétt að hér er tekið á nokkrum atriðum en því miður bíður heildarendurskoðun almannatryggingalaga enn þá. Oft hefur komið fram í umræðum á Alþingi að það er verkefni sem búið er að standa til mjög lengi, þ.e. oft er búið að gera atrennur að því. En þetta er nú sennilega flóknasti lagabálkur sem til er í lagasafninu þannig að ég lýsi þeirri skoðun að sú endurskoðun er ekkert áhlaupaverk. Ég tek undir það að auðvitað þyrfti að fara fram heildarendurskoðun á almannatryggingalögum og það þyrfti að einfalda þau. En ýmis önnur markmið koma í veg fyrir það. Verið er að taka tillit til vissra hópa í samfélaginu sem höllum fæti standa. Ýmis sérákvæði koma í veg fyrir einföldun. Það er alveg ljóst. Þetta er því ekkert mjög auðvelt viðfangs. En ég tek undir það að heildarendurskoðun þyrfti að fara fram.

Ég vona að framkvæmd laganna hvað þessi atriði varðar verði betri við þetta frv. Auk þess sem hugtök eru þar gerð skýrari eru reyndar í því líka nokkur atriði til bóta fyrir viðskiptavini Tryggingastofnunar.

Hv. 15. þm. Reykv. spurði nokkurra spurninga, t.d. hvort málefni námsmanna yrðu skoðuð eða tryggingar þeirra erlendis, hvort fortíðin yrði skoðuð í þeim efnum. Ég get upplýst að ráðuneytið hefur lagt nokkra vinnu í að fylgjast með þróuninni í þessum efnum og að námsmenn haldi réttindum sínum erlendis. Hins vegar er það rétt sem kom fram hjá ræðumanni að lögin eru ekki afturvirk. Ég tel eigi að síður þörf á því að fylgjast með þróuninni í þessum efnum.

Hún spyr hvort uppi séu áform um breytingar á lögum um fæðingarorlof og tók réttilega fram að það er á málasviði félmrh. Ég get því ekki svarað þeirri spurningu. Hins vegar get ég sagt það sem skoðun mína að ef upp koma einhverjir hnökrar við framkvæmd nýrra laga að þá er það mín skoðun að menn eigi að taka það til skoðunar. Ég get ekki svarað fyrir hæstv. félmrh. í þessu efni. Þetta er svona almenn skoðun mín.

Síðan kom hv. ræðumaður að stórmáli sem er tölvukostur Tryggingastofnunar og þjálfun starfsfólks. Ég hef margsinnis rætt þessi mál við forstjóra Tryggingastofnunar og yfirmenn þar og við erum að leita leiða í tölvumálum. Brýn þörf er á að endurbæta tölvukost stofnunarinnar og unnið er að því að leita heppilegustu leiða í því efni og við höfum haft náið samráð um það. Því miður sér ekki fyrir endann á því. Eigi að síður er nauðsynlegt að taka á í þeim efnum.

Varðandi þjálfun starfsfólks þá veit ég að vilji er til þess að sú þjálfun sé sem best og ef ráðuneytið getur eitthvað aðstoðað í því efni þá er það opið frá minni hálfu. Ég tel mikla þörf á því. Eins og hv. þm. þekkir er þetta ekki einföld starfsemi sem þarna fer fram. Þessi réttindamál eru mikill frumskógur þannig að auðvitað er mikil þörf á að verja fjármagni, fyrirhöfn og tíma í þjálfun starfsfólks, þess ágæta fólks sem þar vinnur, ekki síst þegar breytingar eru. Það er algengt að breytingar verða á þessari löggjöf.

Varðandi sex mánaða regluna og undanþáguákvæði þá eru þau ekki í frv. Viss vandkvæði eru í því, en ég vísa því til hv. heilbr.- og trn. að fara yfir þessa grein. Ég held að slíkt undanþáguákvæði yrði að vera vel skilgreint. Ég er auðvitað tilbúinn að hlusta á tillögur í því efni en undanþáguákvæði í slíku er vandmeðfarið og þyrfti þá að byggjast á einhverjum ákveðnum aðstæðum sem liggja utan við þessa sex mánaða reglu.

Hv. ræðumaður telur sjúkradagpeninga skammarlega lága. (ÁRJ: Og vasapeningarnir.) Og vasapeningarnir, já. Því miður eru ekki ákvæði um þá inni í þessu frv. Hins vegar hef ég hug á því og hef lagt drög að því að farið verði yfir það mál. Ég hef í hyggju að setja af stað vinnu varðandi vasapeningana og sjúkradagpeningana. Ég tel þörf á því að fara yfir fyrirkomulag þeirra mála og hyggst leggja vinnu í það á næstunni.

Ég tel að ég hafi farið yfir þær spurningar sem beint var til mín og svarað þeim eins og mér er unnt á þessu stigi. Að öðru leyti þakka ég fyrir góðar undirtektir við frv. og ég veit að hv. heilbr.- og trn. fer yfir það eftir föngum.