Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 12:04:40 (3806)

2002-01-31 12:04:40# 127. lþ. 67.7 fundur 57. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[12:04]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 57, um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja, sem hér er flutt í annað sinn. Hún var flutt í fyrsta sinn á síðasta þingi.

Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Jóhann Ársælsson, Sigríður Jóhannesdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Kristján L. Möller, Bryndís Hlöðversdóttir og Gísli S. Einarsson.

Efni tillögunnar er að fela ríkisstjórninni í samráði við samtök aldraðra og öryrkja að koma á afkomutryggingu fyrir lífeyrisþega svo að enginn þurfi að una fátækt eða óvissu um kjör sín. Þá skal sérstaklega taka tillit til sérstöðu ungra öryrkja sem verða fyrir varanlegri örorku á æskuárum. Í tillögunni stendur að gert sé ráð fyrir að samningur um afkomutryggingu taki gildi frá og með 1. janúar 2002 en því hefði átt að breyta. Þetta er miðað við málið eins og það var lagt fram í fyrra. Nú hefði átt að standa 1. janúar 2003 og bið ég þá nefnd sem fær málið til meðferðar að veita því athygli en gert er ráð fyrir að frá þeim tíma verði þessi samningur undirstaða nýrra laga um almannatryggingar.

Til að ná því markmiði sem að er stefnt og ég hef hér lýst er gert ráð fyrir að taka upp viðræður við stjórnvöld, samtök lífeyrisþega með nýjum samningi um afkomutryggingu og að þessi samningur verði þá undirstaða almannatrygginga.

Það er full ástæða, herra forseti, til að fara nokkrum orðum í tengslum við tillöguna um stöðu og aðbúnað aldraðra og öryrkja í þjóðfélaginu. Ljóst er að þó að kjör aldraðra og öryrkja séu mismunandi eins og annarra hópa í þjóðfélaginu er það allt of stór hópur aldraðra og öryrkja sem býr við bágborið ástand og í heild hafa þessir hópar ekki fengið sanngjarnan eða eðlilegan hlut í góðæri liðinna ára. Í þessum ræðustól og víðar, einnig hjá samtökum aldraðra og öryrkja, hafa verið dregnar fram í dagsljósið skýrar upplýsingar um að þessir hópar hafi ekki fengið með sambærilegum hætti hlut af góðærinu.

Sú staðreynd að t.d. meira en helmingur aldraðra er með framfærslueyri undir lágmarkslaunum staðfestir bág kjör allt of stórs hóps aldraðra í íslensku þjóðfélagi. Það segir líka sína sögu að 40% lífeyrisþega hafa óskerta tekjutryggingu. Í skýrslu um kjör öryrkja sem Samfylkingin óskaði eftir frá forsrh. og var lögð fram á Alþingi, sennilega fyrir tveimur árum, kom fram að 43% allra öryrkja fá engar greiðslur úr lífeyrissjóði. Það er einnig athyglisvert að 22% ellilífeyrisþega, 5.855 manns, voru með tekjur undir 70 þús. kr. á mánuði árið 1999 þegar þessar upplýsingar voru skoðaðar.

Það er enn fremur athyglisvert, herra forseti, og ber að draga fram í þessari umræðu að kjör aldraðra hafa ekki bara dregist aftur úr öðrum, þ.e. lífeyrisgreiðslur þessara hópa, heldur er svo komið að þessir hópar, ellilífeyrisþegar og öryrkjar sem ekki greiddu skatt á árinu 1995 af þeim litla lífeyri sem þeir höfðu frá almannatryggingum, greiða nú sem samsvarar eins mánaðar lífeyri þeirra frá almannatryggingum í skattgreiðslu til ríkissjóðs. Það sýnir glöggt hvernig ríkisstjórnin hefur í raun sett þessa hópa til hliðar og ekki veitt þeim það sem þeim ber og aðrir hafa fengið í þjóðfélaginu.

Það er ástæða til þess að spyrja hæstv. heilbrrh., og vænti ég að hann heyri mál mitt þótt hann standi í hliðarsal, hvort eitthvað sé í undirbúningi, herra forseti, af hálfu heilbr.- og trmrn. og heilbr.- og trmrh. til að bæta kjör og stöðu aldraðra og lífeyrisþega í þjóðfélaginu.

(Forseti (ÍGP): Ég vil tryggja að hæstv. heilbrrh. heyri þessa spurningu hv. þm., ef hv. þm. vildi endurtaka spurninguna.)

Já, ég var að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra í tengslum við þessa tillögu um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja hvort eitthvað væri í undirbúningi á vegum ráðuneytis hans eða ríkisstjórnarinnar til að tryggja betur afkomu ellilífeyrisþega og öryrkja. Það er ekki nóg, herra forseti, eins og gerst hefur hér ár eftir ár, að hreyta einhverjum molum af borði ríkisstjórnarinnar til elli- og örorkulífeyrisþega sem ekki einu sinni ná því að halda í við launavísitöluna enda hafa þessir hópar dregist verulega aftur úr. Það sem vantar er að taka með heildstæðum hætti, herra forseti, á málum þessara hópa og bæta þeim það upp sem þeir hafa dregist aftur úr öðrum hópum á umliðnum árum. Samtök aldraðra settu fram fyrir 2--3 árum og kynntu ríkisstjórninni að verulega vantaði upp á að aldraðir hefðu t.d. hlutfallstekjur á við verkamannalaun miðað við árið 1991 eins og var fyrir tveimur árum. Auðvitað þarf að skoða líka miklu betur samspil lífeyrisgreiðslna almennt úr lífeyrissjóðum almannatrygginga og miða við að enginn þurfi að una fátækt eða óvissu um kjör sín og að miðað sé við að þessir hópar geti framfleytt sér með eðlilegum hætti í þjóðfélaginu. Þess vegna spyr ég: Er eitthvað á borði hæstv. heilbr.- og trmrh. sem gefur vonir um að með heildstæðum hætti sé verið að vinna í málum þessara hópa?

Ég bendi t.d. á, herra forseti, að ef litið er á hækkun lífeyrisgreiðslna hjá einstaklingum og horft á meðaltal milli áranna 2000 og 2001 hafa tryggingagreiðslur hækkað minna en bæði neysluverðsvísitalan og launavísitalan. Og það eru lög, herra forseti --- mig minnir að þau hafi verið sett 1998 --- sem við, a.m.k. í stjórnarandstöðunni og samtök þessara hópa, höfum túlkað þannig að ættu að tryggja að lífeyrisgreiðslur héldu í við launavísitöluna. Hér hef ég upplýsingar undir höndum sem sýna að þó að ellilífeyrir hjóna og örorkulífeyrisgreiðslur hafi haldið nokkuð í við neysluvísitöluna þarf að skoða sérstaklega ellilífeyrisgreiðslur og örorkulífeyri einstaklinga, bara með tilliti til þess að þær greiðslur haldi í við launavísitölu, þótt ekki væri nema að halda í við neysluvísitölu vegna þess að meðaltal milli áranna 2000 og 2001 sýnir að hækkunin á ellilífeyri einstaklinga hefur verið 4,7%, hækkun neysluvísitölu 5,1% og hækkun launavísitölu 6,6%. Ég spyr, herra forseti, hvort hæstv. ráðherra hafi skoðað þessa útreikninga sem ég hér nefni og hvort verið sé að vinna að einhverri heildstæðri stefnumótun í ráðuneytinu til að tryggja betur kjör þessara hópa. Ég hygg að það sé ekki undir 3--5 milljörðum, sennilega ekki undir 5 milljörðum, sem þarf að setja til að auka lífeyrisgreiðslur til þessara hópa til þess einungis að þeir haldi í við það sem aðrir hafa fengið á umliðnum árum. Sú tillaga sem ég mæli hér fyrir gerir ráð fyrir því að þessir fjármunir verði settir til að bæta kjör þeirra sem ég hef hér lýst.

Þegar þetta mál var lagt fram við fjárlagaafgreiðslu í fyrra settum við einmitt fram tillögu við fjárlagagerðina sem mæta átti þessum kostnaði og við erum vissulega tilbúin til að setjast yfir það með hæstv. ríkisstjórn ef hún er tilbúin til að skoða þá leið sem við leggjum hér til, hvernig eigi að afla peninga í þetta brýna verkefni. Ég held að fátt sé eins brýnt í þjóðfélaginu og að bæta stöðu þeirra elli- og örorkulífeyrisþega sem verst eru settir.

Nú er það ekki svo, herra forseti, að elli- og örorkulífeyrisþegar, sá fjölmenni hópur, séu eitthvað þungir á fóðrum í velferðarkerfinu. Velferðarkerfið á Íslandi er t.d. miklu veikara hér en annars staðar á Norðurlöndum og útgjöld ríkissjóðs hér mun minni en annars staðar gerist. Opinber útgjöld til elli- og örorkulífeyrisþega eru t.d. miklu lægri hér á landi en í flestum OECD-löndunum. Í samantekt sem Kristinn Karlsson hjá Hagstofunni tók saman í október 1999 um útgjöld til félags- og heilbrigðismála á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum árið 1997 kemur fram að útgjöld til félags- og heilbrigðismála aldraðra og öryrkja, sem hlutfall af landsframleiðslu, eru langlægst hér á landi. Á Íslandi er hlutfallið 7,7% af landsframleiðslu en allt upp í 17,3% af landsframleiðslu í Svíþjóð, 14,6% í Danmörku, 13,9% í Finnlandi og 12,4% í Noregi.

[12:15]

Þessi samanburður sýnir glöggt að miklu minni hluti af landsframleiðslu fer til útgjalda bæði til félags- og heilbrigðismála fyrir aldraða og öryrkja en á hinum Norðurlöndum og munar þar allt að helmingi ef borin eru saman Danmörk og Ísland.

Herra forseti. Það mætti fara út í ýmsa aðra þætti sem sýna stöðu öryrkja, t.d. húsnæðismál. Þar er orðinn langur biðlisti hjá t.d. Öryrkjabandalaginu. Hópur öryrkja býr við neyðarástand í húsnæðismálum eins og á leigumarkaðnum. Mig minnir að um 400 manns bíði þar eftir leiguíbúðum. Síðast þegar ég skoðaði málið --- ég veit ekki hvernig staðan er nákvæmlega núna --- var þegar þessi þáltill. var samin. Þá biðu um 600 aldraðir eftir hjúkrunar- eða þjónustuíbúðum og stærstur hluti þessa hóps var í mjög brýnni þörf fyrir húsnæði, aðhlynningu eða þjónustu. Við þekkjum að kjör þessara hópa hafa verið að versna, t.d. vegna hækkunar á fasteignagjöldum hjá þeim sem þó eiga og búa í eigin húsnæði. Við þekkjum að kjör þeirra sem eru á leigumarkaðnum hafa einnig verið að versna vegna þess að ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir aldeilis óskiljanlegri hækkun á vöxtum á leiguíbúðum sem samstaða var um í þjóðfélaginu að hafa hér bara 1% þó að illa áraði á árum áður í þjóðfélaginu. En nú eru þessir vextir ekki undir 3,5% og komnir jafnvel upp í 4,9% í sumum tilvikum að því er varðar leiguíbúðir. Þetta hefur sagt mjög afgerandi til sín í kjörum þessara hópa.

Allir þekkja það sem hér hefur gengið á varðandi hækkun á því sviði sem heilbrrh. fer með, þ.e. hækkun á læknisþjónustu og lyfjakostnaði sem ekki síst bitnar á þeim hópum sem hér er um að ræða. Við erum að tala um að á tiltölulega stuttum tíma, kannski einu ári, hafi einn milljarður verið tekinn í aukinn lyfja- og lækniskostnað hjá sjúklingum og það hefur bitnað á þessum hópum þó að ráðherrann hafi reynt með ákveðnum hætti að reyna að halda þannig á málum að minni hluti þessara hækkana komi til þeirra sem verr hafa það.

Ég vil minna á að í tengslum við ráðstafanir í ríkisfjármálum nú fyrir jólin varaði formaður Landssambands eldri borgara, Benedikt Davíðsson, mjög sterklega við auknum gjaldtökum í heilbrigðiskerfinu sem hann sagði bitna með fullum þunga á öldruðum. Hann lagði fram athyglisverða samantekt á breytingum á komugjöldum til sérfræðinga og röntgenrannsókn þar sem kemur fram að hækkunin 1. júlí á liðnu ári var á bilinu 20%--66,7%. Síðan þekkjum við þessa nýlegu hækkun um áramótin sem er veruleg og skiptir hundruðum prósenta í sumum tilvikum og hefur veruleg áhrif á neysluvísitöluna, herra forseti. Mig minnir að hækkun lyfja- og lækniskostnaðar hafi átti að hækka vísitöluna um 0,11%.

Herra forseti. Ég sé að tími minn er búinn. Ég hefði getað sagt meira um þessi mál en óska þess að að þessari umræðu lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. og ég vænti þess að hæstv. heilbrrh. svari þeim fyrirspurnum sem ég hef beint til hans.