Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 12:20:10 (3807)

2002-01-31 12:20:10# 127. lþ. 67.7 fundur 57. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[12:20]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. spyr hvort eitthvað sé á döfinni í heilbrrn. eða hjá ríkisstjórn í málefnum aldraðra og öryrkja. Ég vil minna á að stigin voru skref í málefnum þeirra á liðnu ári, fyrst í upphafi árs í tengslum við öryrkjadóminn, síðan á miðju ári þegar bætur hækkuðu og það fór inn í grunn á þessu ári. Það voru um 700 millj. á síðasta ári og síðan 1,4 milljarðar í hækkun bóta til þeirra sem höfðu lægstar tekjur.

Ég tek undir það að auðvitað þarf að halda vinnunni áfram varðandi kjör þessara hópa. Ég hef hug á því að fara yfir vísitöluna og hækkun bóta og kalla til mín fulltrúa þessara hópa til þess að fara yfir þau mál og fara þá yfir þær tölur sem m.a. hv. þm. var að nefna. Hins vegar verð ég að segja það alveg eins og er og í allri hreinskilni að ég hef ekki umráð yfir 5 milljörðum til þess að uppfylla tillögur hv. þm. Það væri mjög æskilegt ef maður hefði það en því miður hef ég þær fjárupphæðir ekki milli handanna. Eigi að síður er þörf á því þegar fjárlagagerð er undirbúin nú að fara yfir þessi málefni og ég tel að sú hækkun sem var á síðasta ári sé ekki endapunktur. Auðvitað væri æskilegt að ganga lengra en það takmarkast af þeim fjármunum sem tryggingakerfið hefur á milli handanna. En við höfum fullan hug á því í ráðuneytinu að vinna að þessu máli.