Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 12:24:59 (3809)

2002-01-31 12:24:59# 127. lþ. 67.7 fundur 57. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[12:24]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. flutti stutta ræðu um forgangsmál. Ég verð að taka það fram að ég vil ekki setja það þannig upp að skattalækkun til fyrirtækja þurfi endilega að þýða tekjulækkun til ríkissjóðs. Atvinnulífið skilar tekjum til ríkissjóðs. Við viljum að það sé öflugt. Það er undirstaða alls og það er undirstaða þess að við getum aflað 5 milljarða. Síðan var nefndur sérfræðikostnaður og yfirstjórn ráðuneyta. Þetta er gömul plata í þessari forgangsumræðu. Vissulega þarf að sýna aðhald þar en þjóðfélagið er flókið og sérfræðikunnátta þarf að vera fyrir hendi. Ríkisstjórnin og ráðamenn þurfa hana, en ég get tekið þá umræðu síðar.

Hitt vil ég láta koma fram, af því að hv. þm. spurði, að það er einmitt á þessum degi verið að taka ákvarðanir um að lækka kostnað við læknisþjónustu, bæði í heilsugæslu og sérfræðikostnað þannig að komugjald á heilsugæslustöðvar og fastagjaldið í komugjaldi til sérfræðinga verður lægra en það var þegar þau voru hækkuð. Við munum lækka komugjaldið í heilsugæslunni um helming. Einnig verður komugjaldið til sérfræðinga lækkað eða fastagjaldið. Það er verið að taka ákvörðun um þetta núna og reglugerð verður gefin út um það í dag.