Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 12:29:09 (3811)

2002-01-31 12:29:09# 127. lþ. 67.7 fundur 57. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[12:29]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla að taka þátt í þessari umræðu um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja. Samfylkingin vill tryggja kjör aldraðra og öryrkja. Hér liggur fyrir ákveðin tillaga um að fela ríkisstjórninni í samráði við samtök aldraðra og öryrkja að koma á afkomutryggingu fyrir lífeyrisþega svo enginn þurfi að una fátækt eða óvissu um kjör sín og jafnframt taka tillit til sérstöðu ungra öryrkja.

Jafnframt því að við flytjum þessa sérstöku tillögu um afkomutryggingu er alveg ljóst að vinna verður heildarstefnumörkun í málefnum aldraðra og öryrkja því að svo mjög hefur dregið úr stuðningi við þessa hópa og aukist bilið í samfélaginu á milli þeirra sem hafa mikið og þessara hópa sem hafa mjög lítið.

[12:30]

Samfylkingin telur að með þessari tillögu væri hægt að koma á breytingum sem mundu skipta miklu máli. Jafnframt þarf að taka upp viðræður milli ríkisvaldsins, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Þannig gætu þeir aðilar rætt saman sem sinna þurfa þeim sem eiga undir högg að sækja, hvort heldur eru láglaunaðir aldraðir eða öryrkjar. Þetta eru þeir aðilar sem þeir sækja til, sveitarfélagið, aðilar vinnumarkaðarins með lífeyrissjóðina og ríkið, ekki síst þegar eitthvað bjátar á af félags-, heilsufars- eða öðrum ástæðum.

Rauði þráðurinn í málflutningi Samfylkingarinnar er að enginn í okkar þjóðfélagi eigi að una fátækt eða öryggisleysi. Það er líka rauði þráðurinn í umræðunni hjá Samtökum aldraðra þar sem við þingmenn erum af og til kallaðir til. Ég hef farið á fjölmenna fundi hjá Samtökum aldraðra, sem hafa haldið sameiginlega fundi aldraðra í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Þetta hafa verið yfir 300 manna fundir. Þeir benda á að taka þurfi á varðandi þennan samfélagshóp og leggja höfuðáherslu á að rétta hlut þeirra lægst launuðu. Lagfæra hlut þeirra sem búa við greiðslur frá hinu opinbera og frá almannatryggingum, sem eru allt of lágar.

Herra forseti. Í upphafi máls míns langar mig til að nefna fund sem við fulltrúar Íslands í Norðurlandaráði sátum í upphafi þessarar viku. Á þeim fundi var verið að kynna niðurstöðu skýrslu um réttindi Norðurlandabúa. Starfshópur undir forustu Ole Norrback, sem er fyrrum ráðsmaður og ráðherra, vann skýrslu um hvar væri ábótavant í réttindum Norðurlandabúa. Ég held að það hafi komið okkur öllum á óvart sem sátum þennan fund að uppgötva við lestur þessarar skýrslu og framsögur ræðumanna hversu víða pottur er brotinn, þrátt fyrir að Norðurlandasamningar séu fyrir hendi. Við höfum talið að við byggjum við sömu réttindi, óháð því hvort værum á Íslandi eða í Noregi, en svo er ekki. Hins vegar er góður vilji fyrir því í Norðurlandaráði að gera úrbætur þannig að samningar verði virkir og réttindi tryggð.

Ég ætla ekki að fara frekar í þessa skýrslu en hef hugsað mér að leita eftir því að hún verði rædd og við sem sátum þennan fund eigum möguleika á að koma því á framfæri við hv. Alþingi hversu víða þarf að taka á málum í þessum efnum.

Ég vil þó minnast á einn þátt sem skýrslan tók ekki beinlínis til, né fellur hann undir bein réttindi sem Norðurlandabúar eiga þrátt fyrir þennan góða Norðurlandasamning. Ég benti á hann við þessa umræðu. Hann varðar það fólk sem af einhverjum ástæðum ákveður að setjast að í öðru landi en þar sem það hefur skapað sér réttindi. Við getum t.d. tekið mið af ellilífeyrisþega sem, eftir að hann er kominn á eftirlaun eða tryggingagreiðslur, ákveður t.d. að setjast að í Danmörku. Það gæti verið af fjölskylduástæðum eða hvaða ástæðum sem er. Þá fær hann greiddar tryggingagreiðslurnar eins og þær eru á Íslandi. Þær yrðu millifærðar til Danmerkur. Þá kemur auðvitað upp sú staða að greiðslurnar sem ellilífeyrisþeginn frá Íslandi á að lifa af eru í engu samræmi við greiðslurnar sem ellilífeyrisþegi í næsta húsi býr við, sem fær slíka greiðslu frá Danmörku. Af hverju er þetta? Þetta er pólitík. Ástæðan er mismunandi pólitík í Danmörku og á Íslandi. Í Danmörku og annars staðar á Norðurlöndunum hafa menn lagt miklu meiri áherslu á að bæta hag þessara hópa, öryrkja, barnafólks, aldraðra.

Eins og fram kom í máli Jóhönnu Sigurðardóttur, sem er 1. flm. að þessu þingmáli Samfylkingarinnar, er velferðarkerfið á Íslandi miklu veikara en annars staðar á Norðurlöndum, útgjöld ríkissjóðs minni en annars staðar og greiðslur til fólks sem sækir greiðslur til hins opinbera, t.d. í gegnum Tryggingastofnun ríkisins, í engu samræmi við það sem fólk í nágrannalöndunum fær. Við verðum að muna að greiðslur og aðbúnaður aldraðra snýst um pólitík. Það er óásættanlegt hve illa öldruðum er sinnt hjá okkur hvað þetta varðar og að minni hluti þeirra fái góð eftirlaun.

Ég vil líka nefna, virðulegi forseti, af því að komið var inn á það hér, að það hefur dregið í sundur í gegnum árin með greiðslur almannatrygginga og lágmarkslauna, að nú eru lágmarkslaunin um 90.000 á mánuði. Grunnlífeyrir er tæp 20.000, eða 19.990 kr., og tekjutryggingin innan við 35.000, eða 34.372 kr. Samtals 54.362. Við vitum að hjá einstaklingi getur komið til heimilisuppbót og tekjutryggingarauki. Tekjutryggingaraukinn er upp á 15.257 en fyrir manneskju í sambúð kemur bara hluti tekjutryggingaraukans.

Þetta segir okkur að við verðum að gera betur. Við verðum að taka á í málefnum þeirra sem búa við lakari kjör en þorri almennings og við eigum að gera best við aldraða. Það er þjóðfélagshópurinn sem skóp þetta samfélag. Það er í raun og veru verið að brúa skammt bil á milli aðstæðna sem gilda í dag og þess sem verður þegar fólkið sem nú er á vinnumarkaði, þar með þorri kvenna, fer á eftirlaun. Þá munu allir eiga réttindi úr lífeyrissjóði.

Herra forseti. Þetta á að vera sameiginlegt markmið okkar allra.