Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 12:37:24 (3812)

2002-01-31 12:37:24# 127. lþ. 67.7 fundur 57. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[12:37]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég kem upp til að lýsa stuðningi mínum og flokks míns við tillöguna sem við erum hér að ræða, um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja. Við teljum um afar nauðsynlegt mál að ræða og þarft að skipa málum í þjóðfélagi okkar á betri veg en verið hefur. Á undanförnum árum hafa verið miklar deilur um afkomu öryrkja, aldraðra og ýmissa hópa sem af einhverjum ástæðum hafa ekki unnið sér inn eðlilegan rétt til lífeyris eða trygginga. Ég tel að með því markmiði sem að er stefnt í þessari þáltill., að teknar verið upp viðræður milli stjórnvalda og samtaka lífeyrisþega um nýjan samning um afkomutryggingu, sé mörkuð afar jákvæð stefna fyrir framtíðina. Ég þakka þingmönnum Samfylkingarinnar fyrir þessa tillögu.

Við í stjórnarandstöðunni höfum öll flutt eða stutt ýmsar tillögur í þá veru að bæta hag öryrkja, aldraðra og annarra sem af einhverjum ástæðum standa höllum fæti í þjóðfélaginu. Ég vil lýsa því yfir að við í Frjálslynda flokknum styðjum heils hugar þá tillögu sem hér er flutt.

Ég vil einnig taka undir það sem segir í greinargerð með tillögunni, með leyfi forseta:

,,Þjóðfélag getur ekki talist velferðarþjóðfélag nema vel sé búið að öldruðum og öryrkjum og þeim tryggð sómasamleg kjör.``

Undir þetta vil ég taka. Það þarf vissulega að bæta úr hér á landi eins og fram kom í máli hv. 1. flm. tillögunnar, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, og einnig áðan í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Staða öryrkja og aldraðra er miklu lakari hér á landi en í nágrannalöndum okkar og þarft að taka á þessu máli þessum hópum til hagsbóta.