Aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 12:40:37 (3813)

2002-01-31 12:40:37# 127. lþ. 67.9 fundur 239. mál: #A aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[12:40]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um aukinn rétt foreldra vegna veikinda barna.

Þessi þáltill. hefur nokkrum sinnum verið flutt af þingmönnum Samfylkingarinnar en í þetta sinn er hún flutt af þingmönnum úr öllum flokkum. Ásamt mér flytja þessa tillögu hv. þm. Katrín Fjeldsted, Ögmundur Jónasson, Magnús Stefánsson og Guðjón A. Kristjánsson.

Herra forseti. Því ber að fagna við þessa umræðu að við höfum náð saman um þessa tillögu, þingmenn úr öllum flokkum. Það gefur henni vissulega gildi og meiri möguleika og vonir um að þessi tillaga nái fram að ganga. Það er til vansa hvernig þessum málum er skipað í okkar þjóðfélagi og alveg ótrúlegt þegar gerður er samanburður á veikindarétti foreldra vegna veikra barna sinna hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum hver staðan er hér.

Í þessari tillögu segir að vísu að gert sé ráð fyrir sjö veikindadögum á Íslandi. Það hefur eitthvað breyst frá því þetta var sett hér á blað, veikindadagarnir eru víðast hvar orðnir tíu hér að hámarki. Það eru sem sagt greiddir tíu dagar á ári að hámarki fyrir börn undir 13 ára aldri, án tillits til þess hver sjúkdómurinn er, fjöldi barna eða hjúskaparstaða foreldra. Þegar litið er til Svíþjóðar þá eru greidd 90% launa í 120 daga á ári fyrir hvert barn 0--16 ára, meðan við greiðum tíu daga og það bara fyrir börn undir 13 ára aldri, meðan þeir fara upp í 16 ára aldur.

Í Finnlandi eru greidd 66% af launum í 60--90 daga á ári og lengur vegna langsjúkra barna. Í Danmörku er greidd launauppbót, 90% launa til annars foreldris á meðan meðferð stendur og síðan má greiða launauppbót í þrjá mánuði til aðlögunar fyrir barnið og foreldra eftir að meðferð lýkur. Í Noregi eru greiddir allt að 780 dagar, þar af 100% laun í 260 daga og síðan 65% laun í 520 daga fyrir hvert barn 0--16 ára.

Við sjáum að hér er mikill munur og mikið óréttlæti. Það hlýtur að vera komið að því, herra forseti, að þingið manni sig upp í það að taka afstöðu til þess máls sem hér á ferðinni. Í þessum löndum, sem ég hef hér verið að lýsa, annars staðar á Norðurlöndunum, er þessi veikindaréttur greiddur úr opinberum sjóðum en ekki t.d. af atvinnurekendum.

Í þessari tillögu er lagt til að skipuð verði nefnd sem tryggi betur rétt foreldra til launa í fjarveru úr vinnu vegna veikinda barna. Í nefndinni verði fulltrúar félmrn., heilbr.- og trmrn., aðila vinnumarkaðarins og samtaka um málefni sjúkra barna.

Ég held, herra forseti, og bið nefnd sem fær málið til meðferðar að skoða það, að fulltrúi Tryggingastofnunar ríkisins eigi fullt erindi í slíka nefnd. Tryggingastofnunin hefur t.d. sérstaklega verið að skoða réttindi langveikra barna og býr yfir mikilli þekkingu í þessu máli þannig að ég tel að fulltrúi þeirra ætti líka að taka sæti í þessari nefnd.

Lagt er til að niðurstaða nefndarinnar verði lögð fyrir Alþingi á haustþingi árið 2002.

Hér á landi hafa aukin réttindi helst beinst að því að tryggja betur réttindi langveikra barna og er það vel. Þó er það svo að réttindi langveikra barna eru langt frá því nægjanleg hér á landi. Það er fyrst og fremst í gegnum umönnunarbætur sem langveik börn hafa meiri réttindi en þá tíu daga sem hér er getið um. Þar hefur nokkuð verið reynt að bæta úr.

Það má líka benda á, varðandi langveik börn, að þegar meðferð barns lýkur t.d. vegna krabbameins lækka umönnunarbætur verulega, án tillits til þess hvort foreldrið sem hætti að vinna þegar barnið veiktist geti hafið störf að nýju. Börn þurfa hins vegar oft langa aðlögun áður en þau geta lifað því sem kallað er eðlilegt líf eftir meðferð, t.d. krabbameinsmeðferð. Sum búa að auki við varanlegar afleiðingar af þeim sjúkdómi.

[12:45]

Herra forseti. Ég tel fulla ástæðu til að skoða þetta mál. Ég hef mælt fyrir málinu nokkrum sinnum á þingi hér áður og fært fyrir því rök að nauðsynlegt sé að gera hér úrbætur og skoða málið með hliðsjón af því fyrirkomulagi sem gildir annars staðar á Norðurlöndunum. Það er ljóst að foreldrar geta lítið sinnt veikum börnum sínum hafi þeir einungis tíu daga rétt og maður veltir fyrir sér hvort skoða mætti, í því úrlausnarefni sem hér þarf að takast á við ef nefnd fær málið til meðferðar, hvort ekki mætti tvinna saman veikindadaga foreldra almennt á vinnumarkaðnum og veikindadaga barna þannig að foreldrar gætu nýtt veikindadaga sína heima vegna veikra barna sinna.

Ýmislegt mætti skoða í þessu sambandi. Ég held að það væri alveg þess virði að skoða hvort taka ætti upp gömlu sjúkratryggingariðgjöldin og veita meiri tryggingarvernd, t.d. að því er þetta varðar. Ég held að það þurfi líka að taka upp slysatryggingar á börnum þannig að alvarlegt og varanlegt heilsutjón standi ekki óbætt hvað varðar örorku barnsins og skerta framtíðarmöguleika til náms og starfa ef slys ber að höndum. Þetta mál þarf að skoða mjög vel í heild og breidd. Ég hygg að þetta sé eitt af stóru málunum til þess að aðlaga og tvinna betur saman fjölskyldulíf og vinnumarkaðinn, þ.e. að fá úrbætur í þessu máli.

Herra forseti. Ég mun ekki hafa fleiri orð um þetta mál. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu fari málið til heilbr.- og trn. og síðari umr.

Ég fagna þó sérstaklega að endingu, herra forseti, enn og aftur að þverpólitísk samstaða hefur náðst um þetta mál. Ég geri mér miklar vonir um að við getum náð samstöðu um að afgreiða þetta mál, samþykkja þessa till. til þál. sem gerir ráð fyrir gífurlegum réttarbótum fyrir barnafjölskyldur í þessu landi.