Aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 12:52:51 (3815)

2002-01-31 12:52:51# 127. lþ. 67.9 fundur 239. mál: #A aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[12:52]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er verið að ræða till. til þál. sem sá sem hér stendur er flm. að ásamt öðrum þó frumkvæði málsins hafi vissulega komið frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Fyrir það ber að þakka.

Málið snýst um aukin réttindi foreldra vegna veikinda barna. Samkvæmt tillögunni er ráðgert að skipuð verði nefnd til að útfæra þau réttindi betur hér á landi. Í tilögunni er sérstakega vitnað til þess og borið saman hvernig þetta er á hinum Norðurlöndunum.

Ég er mjög hlynntur því að þetta mál verði skoðað gaumgæfilega og réttarstaða foreldra langveikra barna skoðuð sérstaklega. Eins og 1. flm. tillögunnar kom að hér áðan er m.a. hægt að skoða þetta út frá þeim veikindarétti sem fólk hefur. Sá réttur er auðvitað mismunandi vegna þess að veikindaréttur fólks miðast við áunnin réttindi miðað við starfstíma. Það kann að vera liður í að nálgast svipaða réttarstöðu og tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum að fara þetta í skrefum, t.d. með því að útfæra það nánar, þ.e. hvernig megi nota áunninn veikindarétt miðað við starfsaldur í veikindum langveikra barna.

Ég held að þetta mál þurfi að skoða mjög gaumgæfilega, þ.e. hvernig eigi að útfæra það. En markmiðið er afar skýrt. Það þarf að auka réttindi foreldra til að vera hjá veikum börnum sínum og til þess að foreldrar hafi launarétt í þeim tilvikum. Undir það sjónarmið tek ég heils hugar.