Áfallahjálp innan sveitarfélaga

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 12:55:24 (3816)

2002-01-31 12:55:24# 127. lþ. 67.8 fundur 141. mál: #A áfallahjálp innan sveitarfélaga# þál., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[12:55]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um skipulagða áfallahjálp innan sveitarfélaga þegar alvarleg og mannskæð slys ber að höndum. Flutningsmenn eru auk mín hv. þm. Magnús Stefánsson, Árni Steinar Jóhannsson, Guðrún Ögmundsdóttir og Katrín Fjeldsted. Ég vek athygli á því, herra forseti, að að tillögunni standa þingmenn úr öllum flokkum hér á Alþingi.

Tillagan hljóðar svo, herra forseti:

,,Alþingi ályktar að ríkisstjórn í samstarfi við sveitarfélög komi á skipulagðri áfallahjálp innan sveitarfélaga til að bregðast við þegar alvarleg og mannskæð slys ber að höndum.``

Herra forseti. Ég dreg enga dul á það að tilefni þessarar þáltill. er mannskætt og sorglegt sjóslys sem varð fyrir norðan þegar Una úr Garði fórst og með henni tveir ungir sjómenn. En til allrar hamingju bjargaðist annar hluti áhafnarinnar. Tilefni þessarar þáltill. er sú reynsla sem þeir sjómenn er lifðu þetta sorglega slys af hafa orðið fyrir. Hún er í stuttu máli sú, herra forseti, að hin svokallaða, ef svo má að orði komast, fyrsta hjálp, þ.e. björgunaraðgerðir og móttaka þegar í land var komið, hafi verið til fyrirmyndar. Hins vegar virðist pottur brotinn varðandi framhaldið.

Það að upplifa sjóslys eins og hér hefur verið nefnt eða önnur sambærileg slys, að komast lífs af úr því, snertir ekki aðeins líkamlega heilsu heldur ekki síður tilfinningaleg og andleg áhrif á viðkomandi og aðstandendur hans. Þetta snertir einnig vinnustaði sem geta upplifað mikla sorg í kjölfar slysa og þetta getur snert heilu byggðarlögin, eins og þekkt er í sögu landsins.

Ég vil vekja athygli á því að flestir þeirra sem björguðust úr því sjóslysi sem ég nefndi hér eru enn undir eftirliti lækna þó að langt sé um liðið frá því að þetta hörmulega slys átti sér stað, og eru sumir ansi illa haldnir. Það segir í rauninni allt sem segja þarf. Áfallið er mikið og þess vegna er mikilvægt fyrir þjóðfélagið í heild sinni að bregðast skipulega og skynsamlega við í því sem kalla mætti aðra og þriðju aðstoð.

Segja má að reynsla þessara aðila og margra annarra sé sú að skipulag þessara mála sé alls ekki sem skyldi hér á Íslandi. Þess vegna er þessi þáltill. lögð fram. Hún gerir í raun ráð fyrir því að kerfisbundnu skipulagi í áfallahjálp verði komið á í öllum sveitarfélögum á Íslandi og/eða í samstarfi nærliggjandi sveitarfélaga.

Hér er ekki aðeins um að ræða að byggja menn upp tilfinningalega og andlega. Þegar mannskæð slys verða verður það mikið álag á viðkomandi fjölskyldur. Það setur fjárhaginn í vanda og hefur jafnframt mikil áhrif á þá aðila sem tengjast björgunaraðgerðum, björgunarsveitarmenn, lögreglu, presta, lækna og hjúkrunarfólk og þannig má áfram telja. Vissulega er hjá mörgum þessara starfshópa afskaplega vel unnið en virðist þó á skorta að tengja einstaka hópa saman þannig að skipulega sé brugðist við. Tillagan gengur í raun út á að í hverju sveitarfélagi verði komið upp stjórnunarnefnd áfallahjálpar sem bregðist við strax þegar óhapp ber að höndum, meti aðstæður og kalli síðan til þá aðila sem á þarf að halda, taki með öðrum orðum frumkvæðið í að skipuleggja uppbyggingu áfallahjálparinnar á vinnustöðum, í samfélaginu öllu, hjá fjölskyldum og ekki síst einstaklingunum. Tillagan gerir í raun ráð fyrir að með slíkum kerfisbundnum hætti verði tilnefndir einstaklingar í slíka stjórnunarnefnd, aðalmenn og varamenn, og ávallt sé vitað hverjir séu á vaktinni hverju sinni og þeir geti brugðist við.

[13:00]

Í grg. með tillögunni er m.a. bent á að í slíkri stjórnunarnefnd þurfi að sitja fulltrúar heilsugæslu, þar sem lækniskunnáttan er; prestar, sem gegna afskaplega mikilvægu starfi í slíkum tilfellum; lögreglumenn og björgunarsveitarfólk; fulltrúar peningastofnana, tryggingafélaga, skóla og atvinnulífs. Einnig má nefna félagsráðgjafa sem starfa í mörgum sveitarfélögunum og hafa sérkunnáttu í þessu.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á fulltrúum peningastofnana og tryggingafélaga. Hugsunin með því að slíkir aðilar eigi sæti í stjórnunarnefnd er sú að létta þeim áhyggjum af einstaklingum sem lifa af alvarleg slys að þurfa ekki að hafa áhyggjur af fjármálum heldur geti þeir einbeitt sér að því að byggja sig upp andlega, líkamlega og tilfinningalega og þurfi ekki að eyða orku sinni í fjárhagsáhyggjur sem slys hefur leitt yfir viðkomandi.

Jafnframt er, herra forseti, gert ráð fyrir að á landsvísu verði svokölluð yfirstjórn áfallahjálpar fyrir landið allt. Sú yfirstjórn yrði einstökum stjórnunarnefndum sveitarfélaga til aðstoðar með námskeiðahaldi, sérfræðikunnáttu og þar fram eftir götunum. Með öðrum orðum gengur þáltill. út á að fagfólk úr sem ólíkustum áttum komi að skipulagðri áfallahjálp innan einstakra sveitarfélaga, í samstarfi sveitarfélaga og með yfirstjórn. Það er trú flutningsmanna að með því verði komið á afskaplega mikilvægum forvörnum fyrir samfélagið í heild sinni, þ.e. með möguleikanum á að grípa til markvissra aðgerða við sorgarviðbrögðum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Greinargerðin segir í raun allt sem segja þarf. Ég mælist til þess að að umræðu lokinni verði þáltill. þessari vísað til síðari umr. og hv. heilbr.- og trn.