Málefni flugfélagsins Go-fly

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 13:41:19 (3820)

2002-01-31 13:41:19# 127. lþ. 67.94 fundur 298#B málefni flugfélagsins Go-fly# (umræður utan dagskrár), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[13:41]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil í byrjun þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að hefja umræðu um þetta mál. Ég held að við séum öll sammála um að það sé slæmt fyrir ferðaþjónustuna og alla landsmenn að þetta flugfélag, flugfélagið Go-fly, skuli hætta flugi til Íslands. Há afgreiðslu- og lendingargjöld eru talin ástæðan.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst ótrúlegt andvaraleysi stjórnvalda koma fram í þessu máli, ef rétt er sem sagt hefur verið, að menn hafi ekkert beitt sér fyrir öðrum möguleikum eða nálgast flugfélagið varðandi aðra þætti. Ég vildi spyrja hvort hæstv. samgrh. fyndist ekki eðlilegt að skoða t.d. möguleikana á því að flugfélag eins og Go hefði möguleika á að hefja flug inn á Akureyri eða Egilsstaði. Ég held að það væri mál sem þyrfti að skoða alvarlega. Ákveðnir aðilar fá stuðning við flug út á land, t.d. er í farvatninu samningur Grænlendinga og Flugleiða um styrkingu á flugi til Grænlands. Þetta væri e.t.v. flötur sem mætti nálgast málið frá, að koma þá fluginu inn á Akureyri. Þaðan er nú ekki nema fimm tíma keyrsla til höfuðborgarsvæðisins.

Ég vil spyrja hæstv. samgrh. hvort ráðuneyti hans væri tilbúið að fara í viðræður við flugfélagið á þeim nótum að þessari þjónustu yrði beint inn á landsbyggðarflugvöll, annaðhvort á Akureyri eða Egilsstaði.