Málefni flugfélagsins Go-fly

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 13:45:46 (3822)

2002-01-31 13:45:46# 127. lþ. 67.94 fundur 298#B málefni flugfélagsins Go-fly# (umræður utan dagskrár), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[13:45]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Um hríð átti íslenskt launafólk þess kost að geta ferðast til London fyrir sama verð og það kostar að fljúga til Egilsstaða, svona um það bil. Það tækifæri gripu landsmenn svo sannarlega fegins hendi.

Eðli lágfargjaldaflugfélaga er að selja mikið magn sæta á ákaflega lágu verði þannig að hagnaður á hvern miða er lítill. Kostnaður við umsýslu, lendingargjöld og skatta á flugvöllum skipta þessi félög því gríðarlega miklu máli. Krafa neytenda hér á landi er skýr að mínu viti. Þeir vilja ferðast á lágum flugfargjöldum og þeir vilja aukna ferðamöguleika.

En þetta er ekki í fyrsta sinn, herra forseti, sem erlend flugfélög hætta við að fljúga hingað af þessum ástæðum. Þarf yfirmaður samgöngumála og ferðaþjónustunnar ekki að spyrja sig hvaða ástæða liggi raunverulega að baki þeirri staðreynd að erlend flugfélög hafa mest enst í viðskiptum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar í tvö ár eða svo? Hvað veldur því að þau flosna öll upp?

Í morgun barst frétt af því, herra forseti, að lukkuriddarar Framsfl. væru komnir í prívatsamningaviðræður um að fella niður gjaldtöku ríkisins á næturflugi. Hvar stendur það skrifað, herra forseti, að lággjaldaflugfélög vilji öðrum fremur bjóða upp á næturflug? Gæti það ekki hugsast að forsvarsmenn flugfélagsins Go-fly væru tilbúnir til þess að fljúga hingað á öðrum tímum sólarhringsins?

Nei, auðvitað er orsakanna að leita í samkeppnisaðstöðu fyrirtækjanna við flugafgreiðslu í Leifsstöð. Samkvæmt forsögn Evrópusambandsins frá árinu 1996 sem fjallar um að koma á frelsi í flugafgreiðslu innan sambandsins og á hinu Evrópska efnahagssvæði --- en tilskipunin var tekin upp í EES árið 2000 í október --- ber okkur að koma á frelsi í flugafgreiðslu.

Hér hefur enn ekki verið sett reglugerð um þetta eða lög. Ég leitaði að því á heimasíðu samgrn. í morgun og fann ekki neitt, herra forseti. En sú heimasíða var síðast uppfærð 1. júlí 2000 og því nota ég hér tækifærið og spyr hæstv. samgrh.: Hvers vegna hefur ekki verið sett reglugerð um þetta mál?