Málefni flugfélagsins Go-fly

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 13:48:06 (3823)

2002-01-31 13:48:06# 127. lþ. 67.94 fundur 298#B málefni flugfélagsins Go-fly# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[13:48]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Það hlýtur að teljast alvarlegt mál ef flugfélag, hvort sem það heitir Go-fly eða annað, hættir að fljúga hingað. Það er alvarlegt mál ef 30 þús. dýrmætir lággjaldafarþegar hætta að koma, farþegar sem eru hrein viðbót og hafa ekki flogið með Flugleiðum. Þetta eru viðbótarfarþegar, farþegar sem koma til að njóta, upplifa og eyða hér á Íslandi.

Herra forseti. Ég vil að gefnu tilefni segja að ég hef ekki staðið í neinum samningaviðræðum heldur leitaði eftir upplýsingum hjá forsvarsmönnum Go-fly. Hv. síðasti ræðumaður hefði betur aflað sér betri upplýsinga til að koma í veg fyrir að sá ágæti þingmaður færi hér með fleipur eins og hún gerði hér áðan.

Svör forsvarsmanna Go-fly eru einföld. Ástæðan fyrir þeirri ákvörðun að hætta að fljúga til Íslands er í fyrsta lagi sú að næturflug er almennt dýrara. Önnur ástæða, sem skiptir verulega miklu máli, er sú að leggurinn til Íslands er langur með þeim afleiðingum að áhafnir nýtast verr en á styttri leggjum milli borga á meginlandi Evrópu. Síðan bætast auðvitað við gjöldin eins og hér hefur komið fram.

Hvað geta þá stjórnvöld gert? Það liggur fyrir að frá 1. jan. árið 2001 komst á samkeppni um afgreiðslu. Það getur hver sem er tekið að sér afgreiðslu flugvéla á Keflavíkurflugvelli í dag. Lendingargjöldin eru eðlileg í samanburði. Eftir stendur hins vegar sá farþegaskattur sem hér hefur verið nefndur. Í tilfelli Go-fly er hann um 13--15% af fargjaldinu, 60--70 millj. kr. á ári.

Ef enginn farþegi kemur verða engar tekjur til ríkissjóðs. Ef við náum þessum lággjaldafarþegum inn þá skila þeir farþegaskattinum á fyrsta degi í formi neysluskatta. Þess vegna tel ég eðlilegt að stjórnvöld beiti sér fyrir því að fella niður þennan farþegaskatt á lágagjaldaflugfélög, hvort sem þau heita Flugleiðir, Go-fly, Ryanair eða eitthvað annað, vegna þess að lággjaldafarþegar eru þeir verðmætustu fyrir ferðaþjónustu á Íslandi og ríkissjóð í heild sinni.