Málefni flugfélagsins Go-fly

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 13:50:27 (3824)

2002-01-31 13:50:27# 127. lþ. 67.94 fundur 298#B málefni flugfélagsins Go-fly# (umræður utan dagskrár), HBl
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[13:50]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þessi umræða er athyglisverð. Ég vil fyrst taka fram að það er ekki viðeigandi í umræðum sem þessum að hæstv. samgrh. sé spurður spurninga. Hv. þm. vita að hann hefur ekki svigrúm til að svara þeim þar sem sá fjöldi þingmanna sem kemst að í hálftímaumræðu er takmarkaður. Þannig er venjan að spyrja ekki undir slíkum kringumstæðum ráðherra sem ekki taka þátt í umræðunum.

Ég vil taka það fram fyrst að mér finnst athyglisvert hvernig brugðist er við nú þegar þetta erlenda flugfélag hefur af efnahagsástæðum tekið ákvörðun um að fljúga ekki til Íslands. Það er vitað að þetta flugfélag hefur verið rekið með halla og hefur ekki talið borga sig að fljúga til Íslands í samkeppni við Flugleiðir. Þá hafa komið upp hugmyndir um að reyna að jafna þessi met með því, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, að fella niður farþegaskatta á lággjaldaflugfélögum.

Auðvitað verða öll flugfélög að greiða opinber gjöld með sama hætti. Það er mjög athyglisvert ef sú hugmynd er komin upp hér í þingsalnum að mismuna eigi flugfélögum með þeim hætti að það sem hefur meiri umsvif eigi að sitja við annað og lakara borð gagnvart ríkinu en hitt sem kemur hingað endrum og sinnum.

Við skulum ekki gleyma því að hjá Flugleiðum vinna 2.200 manns. Velta Flugleiða er í kringum 30 milljarðar á ári og ég man ekki til þess að þeir hv. þm. sem hér hafa tekið dýpst í árinni hafi kvatt sér hljóðs þegar hinir hörmulegu atburðir gerðust 11. september og við stóðum frammi fyrir að óvíst væri um framtíð áætlunarflugs til og frá Íslandi. Þeir virtust ekki hafa áhuga á því þeir hv. þingmenn.