Málefni flugfélagsins Go-fly

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 13:54:53 (3826)

2002-01-31 13:54:53# 127. lþ. 67.94 fundur 298#B málefni flugfélagsins Go-fly# (umræður utan dagskrár), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[13:54]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda þessarar umræðu og jafnframt félaga mínum, hv. þm. Hjálmari Árnasyni, fyrir að vekja opinberlega máls á þessu hagsmunamáli fyrir íslenskan ferðaiðnað. Ef skattar ríkisins, farþegaskatturinn sem hér er til umræðu m.a., verður felldur niður og miðað er við þann fjölda sem Go-fly flutti hingað til landsins þá missir ríkissjóður tekjur á bilinu 60 og 70 millj. kr. Þetta er vissulega dágóð fjárhæð en við verðum líka að gæta okkur á að hirða ekki aurinn en kasta krónunni.

Í fyrsta lagi ber okkur að meta þennan tekjumissi með hliðsjón af þeim hagnaði sem íslenskur ferðaiðnaður hefur haft af þeim 30--35 þús. farþegum sem Go-fly er að flytja til landsins. Lágfargjöld Go-fly byggjast m.a. á milliliðalausum viðskiptum flugfélagsins við þá farþega sem þeir flytja. Strax og til landsins er komið byrja þeir hins vegar að kaupa og greiða fyrir þjónustu og vörur af virðisaukaskattskyldum íslenskum ferðaiðnaði. Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum ferðaþjónustunnar nema árlegar gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum rúmum 30 milljörðum kr. og þar af er talið að um 25--35% renni til ríkisins, tekjur sem nema á milli 35 og 40 þús. kr. á hvern ferðamann.

Í þessu samhengi, herra forseti, vil ég einnig minna á að við lokafrágang fjárlaga var ákveðin sérstök fjárveiting sem nam 150 millj. til eflingar markaðssetningu íslensks ferðaiðnaðar til að bregðast við þeim samdrætti sem varð þegar í kjölfar hryðjuverkanna í New York í september sl. Um það var full samstaða enda var öllum ljóst að það yrði að grípa til aðgerða til að bregðast við þeim afleiðingum sem fyrirsjáanlegur langvarandi samdráttur gæti haft á ferðaiðnaðinn og íslenskt efnahagslíf. Af kynnum mínum af störfum nokkurra þeirra sem vinna við markaðssetningu íslensks ferðaiðnaðar þá efa ég ekki að þessum peningum sé vel varið og hefði eflaust mátt verja meira til þessa.

Í þessu samhengi verðum við hins vegar að gæta að því að glutra ekki niður þeim tekjum og þeim tækifærum sem við höfum í hendi. Forsvarsmönnum ferðaþjónustu ber að hafa yfirlit yfir allt sviðið við skipulagningu ferðaiðnaðar.