Málefni Go-fly -- spurningar til samgönguráðherra

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 14:06:34 (3831)

2002-01-31 14:06:34# 127. lþ. 67.92 fundur 296#B málefni Go-fly -- spurningar til samgönguráðherra# (um fundarstjórn), HBl (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[14:06]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er flókið undir hvaða dagskrárlið maður á að svara þegar veist er að einstökum þingmönnum og forseta Alþingis undir því yfirskyni að verið sé að ræða fundarstjórn forseta.

Fyrir lá beiðni sem var lögð fram á fundi forseta með formönnum þingflokka um að hv. 7. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, óskaði eftir því að ræða málefni flugfélagsins Go og eðlilegt er að sú umræða sé við hæstv. utanrrh.

Það er rangt hjá hv. þm. að jafnframt hafi komið fram beiðni um að ræða við hæstv. samgrh. um reglugerðir eða ferðamál almennt utan dagskrár. Það er algjörlega rangt og uppspuni frá rótum. (Gripið fram í.) Á hinn bóginn veit hv. þm. einnig að þegar takmarkaður ræðutími er, hálftími, þá er samkomulag um það milli flokka að hver flokkur fái að ráða þeim þingmönnum sem fyrir hann tala, en ekki annarra stjórnmálaflokka menn. Þess vegna er það í samræmi við þingvenju að beina ekki fyrirspurnum til ráðherra sem ekki er í fyrirsvari í slíkum umræðum. Ég hygg því að sannleikurinn sé sá, og tek undir með hæstv. samgrh., að ef hv. þm. óskar eftir að taka málið upp utan dagskrár þá skal ekki standa á mér að verða við þeirri beiðni. En það ber að leggja mál rétt fyrir á Alþingi.