Málefni Go-fly -- spurningar til samgönguráðherra

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 14:08:31 (3832)

2002-01-31 14:08:31# 127. lþ. 67.92 fundur 296#B málefni Go-fly -- spurningar til samgönguráðherra# (um fundarstjórn), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[14:08]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Enn sem komið er hefur nú ekki komið fram hvort búast megi við því af hálfu forseta að færi gefist til að ræða það mál sem hér hefur verið borið upp, þannig að ég hlýt að ítreka það í þessari umræðu, ekki síst eftir þær ódrengilegu árásir sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson stundar. Hann hefði hins vegar átt að hlusta á félaga sinn úr Samfylkingunni, Lúðvík Bergvinsson, sem var að átelja þau vinnubrögð formanns Samfylkingarinnar að beina ekki þeim fyrirspurnunum beint til samgrh. sem vörðuðu ferðamálin sérstaklega. Til að upplýsa hv. þingmenn er rétt að geta þess að ég gerði ekki ráð fyrir öðru en að vera hér viðstaddur eins og hv. þm. bað um að ég yrði. Ég gerði ráð fyrir að hann vildi að ég fylgdist með þessari umræðu, ég væri ekki hér til sérstakra andsvara til viðbótar við hæstv. utanrrh., heldur að mér gæfist færi á að fylgjast með umræðunni, vegna þess að ég bjóst við að hv. þm. mundi síðan koma hér í þingið og óska eftir sérstakri umræðu í framhaldinu við samgrh. Það er hinn eðlilegi framgangur þessa máls og venjuleg vinnubrögð í þinginu.

Ég vísa algerlega á bug ádrepum hv. þingmanna um að ekki séu til upplýsingar um reglugerðir eða reglugerðir gefnar út, hvað þá að heimasíður séu ekki uppfærðar. Heimasíður Stjórnarráðsins eru mjög vandlega uppfærðar og ýmsir ættu að taka sér þær til fyrirmyndar, þótt þær séu ekki til umræðu undir liðnum um stjórn fundarins.