Málefni Go-fly -- spurningar til samgönguráðherra

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 14:12:18 (3834)

2002-01-31 14:12:18# 127. lþ. 67.92 fundur 296#B málefni Go-fly -- spurningar til samgönguráðherra# (um fundarstjórn), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[14:12]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér á sér stað undarleg uppákoma. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur hér utandagskrárumræðu sem hann sjálfur beinir til hæstv. utanrrh. Það upplýsist jafnframt í umræðunni að hv. málshefjandi hafði óskað eftir því við hæstv. samgrh. að ráðherrann yrði hér viðstaddur. Við því varð hæstv. samgrh. og ber að þakka það, þá virðingu sem hæstv. samgrh. sýnir þinginu og jafnframt því málefni sem hér er til umræðu. Síðan gerist það í umræðunni að hæstv. utanrrh. svarar hv. málshefjanda og í umræðunni koma fram ýmsar leiðréttingar á upplýsingum sem hv. málshefjandi hafði í framsögu sinni. Hver verða þá viðbrögðin? Þau finnast mér dálítið undarleg, þ.e. að ráðast á hæstv. samgrh. fyrir að vera hér í salnum. Mér finnst það ekki drengilegt, herra forseti.

Þá vil ég vara við því sem hv. málshefjandi dregur upp hér, þar sem hann ýjar að því að hann ætlist til þess að tveir og jafnvel fleiri ráðherrar sitji fyrir svörum í sömu umræðunni. Hvaða áhrif hefði það á störf þingsins, á þetta form þingsins sem snarpast er, þar sem margir þingmenn eiga möguleika á því að koma að umræðunni í stuttum en snörpum umræðum? Ætlast hv. málshefjandi til þess að þetta verði eingöngu einkaræður málshefjanda og síðan nokkurra ráðherra? Ég vara við því.

Hins vegar tek ég undir með hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni sem mæltist til þess við formann sinn og foringja að hann hefði hugsanlega átt að beina umræðunni, ef hann vildi gera þetta að almennri umræðu um ferðamál, til hæstv. samgrh. Menn verða að gera þetta upp við sig, þ.e. vita við hvern þeir ætla að tala og um hvað.