Málefni Go-fly -- spurningar til samgönguráðherra

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 14:21:12 (3838)

2002-01-31 14:21:12# 127. lþ. 67.92 fundur 296#B málefni Go-fly -- spurningar til samgönguráðherra# (um fundarstjórn), HBl
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[14:21]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Eins og hv. 7. þm. Reykv., Össuri Skarphéðinssyni, er kunnugt hefur sú venja skapast að hægt sé að taka mál upp, eins og þau sem hann nefndi, í upphafi fundar undir liðnum störf Alþingis og honum hefði þess vegna verið í lófa lagið að beina þessum fyrirspurnum til hæstv. samgrh. í upphafi þessa fundar. Ekkert var við það að athuga nema síður sé og eðlilegt. Á hinn bóginn ef fram fer umræða utan dagskrár um málefni sem heyrir undir utanrrh. þá er eðlilegt að málflutningi sé hagað í þinginu í samræmi við það sem hver þingflokkur kýs sér eins og samkomulag hefur orðið um og rætt hefur verið. Ef hv. þm. hefði bráðlegið á þá hefði hann hæglega getað fyrr á þessum degi spurt hæstv. samgrh. þeirrar spurningar sem hann ber nú svo mjög fyrir brjósti. Hann getur auðvitað gert það þegar næsti fundur verður settur. Án nokkurra málalenginga getur hann tekið þetta mál upp þá. Mér finnst þessi málatilbúnaður hálfundarlegur og satt að segja ekki sannur.