Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 16:15:23 (3856)

2002-01-31 16:15:23# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[16:15]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég tel ekki eðlilegt að samþykkja þá tillögu sem hér er til umræðu. Af hverju ekki? Jú, það eru aðallega fjórir þættir sem leiða til þess. Í fyrsta lagi eru valkostirnir sem kjósa á um óskýrir. Í öðru lagi tel ég að tillagan sé óþörf því góðar líkur eru á pólitískri samstöðu um virkjanaheimild til Kárahnjúkavirkjunar þegar við alþingismenn greiðum atkvæði um hana síðar á þessu þingi. Í þriðja lagi er sú framkvæmd sem hér um ræðir og er hvati að framangreindri tillögu ekki ný af nálinni. Búið er að gera ráð fyrir henni í svæðisskipulagi miðhálendisins um nokkurra ára skeið, allt frá síðasta kjörtímabili. Stjórnvöld eru ekki að fjalla um þetta mál á yfirstandandi kjörtímabili eingöngu eins og 1. flm. sagði áðan. Menn hafa haft þessa framkvæmd uppi á borðinu í allri stefnumótun um skipulag hálendisins um árabil eða á tveimur kjörtímabilum. Í fjórða lagi hefur almenningur haft einstaklega góðan aðgang að ákvarðanatöku vegna hennar.

Almenningur hefur haft betri aðgang að ákvarðanatökunni en tíðkast hefur gagnvart öðrum stjórnvaldsákvörðunum. Hér á ég auðvitað við aðkomu almennings bæði við gerð svæðisskipulags miðhálendisins og við umhverfismatsferli vegna Kárahnjúkavirkjunar. Margir nýttu sér þessa aðkomu og tekið var tillit til fjölmargra athugasemda sem komu en þær leiddu m.a. til margra skilyrðanna 20 sem sett voru í úrskurði okkar vegna Kárahnjúkavirkjunar. Mun ég nú færa frekari rök fyrir ofangreindum fjórum atriðum.

Í tillögunni sem hér er rædd er gert ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls. Herra forseti, framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls er ekki nema að hluta til tengd svokallaðri Kárahnjúkavirkjun. Hálendið norðan Vatnajökuls er margfalt stærra en hugsanleg virkjun nær til. Virkjunin hefur áhrif á þann hluta hálendisins sem liggur norðan Brúarjökuls. Tillaga sú sem hér er til umræðu er því nokkuð villandi fram sett.

Þar fyrir utan eru kostirnir óskýrir sem kjósa á um. Það er lágmark þegar lögð er til þjóðaratkvæðagreiðsla um tiltekin mál að kostirnir sem kjósa á milli séu skýrir og auðskiljanlegir. Möguleikarnir sem kjósa á um eru:

a. styðja núverandi áform um Kárahnjúkavirkjun,

b. fresta þeim þar til tekin hefur verið afstaða til ýmissa annarra atriða.

Það er nokkuð kúnstugt í ljósi fyrri afstöðu Vinstri grænna að í þessari tillögu þeirra skuli ekki vera gefinn kostur á að hafna Kárahnjúkavirkjun heldur eru kostirnir óskýrir. Maður á að velja milli þess gagnvart Kárahnjúkavirkjun að segja já eða kannski.

Virðulegi forseti. Hver er framtíð miðhálendisins? Stefnumótun varðandi framtíð hálendisins kemur fram í svæðisskipulagi miðhálendisins sem var samþykkt í apríl 1999 og nær til 2015. Í því skipulagi er gert ráð fyrir stórum verndarsvæðum og nokkrum minni mannvirkjabeltum. Gert er ráð fyrir Kárahnjúkavirkjun í því svæðisskipulagi. Í því er reyndar gert ráð fyrir tveimur lónum, þ.e. Hálslóni og Eyjabakkalóni, en fallið hefur verið frá því síðarnefnda með núverandi áformum um Kárahnjúkavirkjun og Hálslón stækkar nokkuð á móti. Við það dregur verulega úr umhverfisáhrifum orkunýtingar á svæðinu. Áform um nýtingu orkunnar í Jökulsá á Dal og Jökulsá í Fljótsdal eru því ekki ný af nálinni.

Virðulegi forseti. Í sambandi við hálendið hafa menn rætt um ósnortin víðerni. Verði af fyrirhugaðri virkjun munu ósnortin víðerni skerðast af hennar sökum um um það bil 900 ferkílómetra. Eftir standa þá 13.600 ferkílómetrar sem er margfalt stærra en það ósnortna svæði sem næststærst er í Vestur-Evrópu, en það er Hardangervidda í Noregi.

Landið norðan Vatnajökuls er dýrmætt vegna náttúrufars, mikilfengleika og andstæðna. Því er mikilvægt að við gerum okkur betri grein fyrir því hvernig við viljum samþætta verndun og nýtingu, komi til virkjanaframkvæmda. Af því tilefni kynnti ég fyrir nokkru í ríkisstjórn að ég mundi láta fara fram skoðun á öllum möguleikum í því sambandi. Á að stækka fyrirhugaðan Vatnajökulsþjóðgarð til norðurs? Á að stofna sérþjóðgarð umhverfis Snæfell eða á að huga að annars konar verndun? Ljóst er að verði af virkjanaframkvæmdum er eðlilegt að samhliða þeim verði hugað að þjónustu og fræðslu fyrir ferðalanga sem njóta vilja útivistar og náttúru svæðisins.

Virðulegi forseti. Það er rétt að rifja upp fyrir hv. þm. og öðrum þeim sem á þetta hlýða hvers vegna við erum yfirleitt að huga að virkjun fallvatnanna. Jú, við viljum gjarnan nýta okkur auðlindirnar á sem eðlilegastan máta og í sem mestri sátt við náttúruna. Við búum svo vel að eiga fallvötn og jarðvarma sem unnt er að beisla til orkugjafar. Við Íslendingar höfum nýtt um 15--20% möguleika okkar á þessu sviði. Að mínum dómi verða þeir aldrei nýttir allir vegna umhverfisáhrifa sem þeim fylgja í einstökum tilfellum. En stjórnvöld hafa markað þá stefnu um langt skeið að nýta enn frekar en í dag orkulindirnar, að undangenginni nákvæmri skoðun á umhverfisáhrifunum. Fáar aðrar þjóðir hafa sambærilega möguleika á nýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum við þá sem við höfum. Þær þurfa margar hverjar að notast við kjarnorku. Svíar og Finnar nota kjarnorku en finnska ríkisstjórnin lagði nýlega til við finnska þingið að nýju kjarnorkuveri verði bætt við þau sem fyrir eru.

Bandaríkjamenn, Bretar, Þjóðverjar og Frakkar nota kjarnorku og Japanir ætla að byggja 13--15 ný kjarnorkuver á næstu árum. Við hins vegar notum í dag hærra hlutfall endurnýjanlegrar orku en nokkurt annað ríki í heiminum og höfum möguleika á aukinni framleiðslu slíkrar grænnar orku.

Virðulegi forseti. Það eru kostir og ókostir við Kárahnjúkavirkjun. Það er rétt hjá andstæðingum virkjunaráforma að hún veldur umtalsverðum umhverfisáhrifum. Þar fer land undir vatn. Það verða áhrif á gróður og dýralíf. Hins vegar eru kostirnir þeir að við fáum vistvæna orku, endurnýjanlega orku, við það skapast atvinna og efnahagur landsins alls glæðist.

Eftir að hafa skoðað kosti og ókosti fyrirhugaðrar virkjunar tel ég eðlilegt, að uppfylltum 20 skilyrðum, að heimila virkjunina eða fallast á umhverfismatið en skilyrðin minnka umhverfisáhrifin verulega. Í skilyrðunum er nokkrum veitum sem valda umtalsverðum umhverfisáhrifum hafnað. Þannig má minnka umhverfisáhrifin við Snæfell, þ.e. svæðinu umhverfis Snæfell verður hlíft. Einnig er yfirfallið úr Hálslóni í Desjarárdal hafnað og gerð krafa um að yfirfallinu verði veitt um stíflustæðið við Kárahnjúka. Þannig minnka umhverfisáhrifin, bæði á Hafrahvammagljúfrið og á Desjarárdal.

Ströng skilyrði eru sett varðandi varnir gegn áfoki og rofi úr Hálslóni sem eiga að hindra gróðureyðingu utan Hálslóns. Einnig er gerð krafa um að lækka Klapparhaft við Lagarfoss til að lágmarka áhrif á vatnaflutningum á Héraði. Að öllu framansögðu tel ég eðlilegt að fallast á umhverfismat þessarar virkjunar.

Bráðlega mun hæstv. iðnrh. leggja fram á Alþingi frv. til laga um heimild fyrir Kárahnjúkavirkjun. Miðað við þær umræður sem átt hafa sér stað eftir að úrskurður féll vegna mats á umhverfisáhrifum hennar lítur út fyrir samstöðu afgerandi meiri hluta þingmanna við hana. Miklar líkur eru á að afgerandi meiri hluti þingmanna muni greiða virkjunarheimildinni atkvæði sitt á þinginu og að tiltölulega fáir muni greiða atkvæði gegn henni. Líkur eru því á nokkuð breiðum pólitískum stuðningi við málið frá þeim sem eru lýðræðislega kjörnir til að taka ákvarðanir af þessu tagi.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur t.d. talað jákvætt um úrskurð umhvrh., m.a. sagt að skilyrðin 20 séu til bóta og því séu framkvæmdirnar í eðli sínu sé aðrar en þær sem talað var um í upphafi og Skipulagsstofnun úrskurðaði um. M.a. segir hv. þm. Össur Skarphéðinsson í DV 28. desember 2001, með leyfi forseta:

,,Þess vegna tel ég að búið sé að svara öllum veigamestu aðfinnslum skipulagsstjóra og umhverfisráðherra því stætt að snúa við úrskurðinum með málefnalegum hætti.``

Virðulegi forseti. Í tillögunni sem við ræðum hér er einn af kostunum að fresta ákvörðun um framkvæmdir þar til m.a. rammaáætlunin Maður -- nýting -- náttúra verði endanlega tilbúin en að henni hefur verið unnið um alllangt skeið. Í þeirri áætlun eru um 100 vatnsafls- og jarðvarmavirkjunarkostir skoðaðir út frá m.a. umhverfis-, byggða- og efnahagssjónarmiðum. Í rammaáætlun eru virkjunarkostir ekki skoðaðir jafn vel og í umhverfismatsferlinu. Hins vegar eru þeir þar skoðaðir hver í samanburði við annan og flokkaðir. Sú vinna sem fram fer á vegum rammaáætlunar er mikilvæg og ef vel tekst til gæti hún nýst til aukinnar sáttar um nýtingu orkuauðlinda okkar. Veruleikinn er hins vegar sá að enn er nokkuð í land með að hún klárist og e.t.v. næst ekki endanleg niðurstaða fyrr en á næsta kjörtímabili.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef hér fært rök fyrir tel ég ekki eðlilegt að samþykkja þá tillögu sem hér er til umræðu. Helstu rökin eru þau að hún er óþörf. Stefnumörkun um framtíð hálendisins felst í því svæðisskipulagi sem samþykkt var árið 1999. Þar er m.a. gert ráð fyrir Kárahnjúkavirkjun í svipuðu formi og við sjáum hana fyrir okkur í dag. Einnig er að mínu mati óþarfi að láta þjóðina kjósa um þetta tiltekna mál í þjóðaratkvæðagreiðslu því að töluverðar líkur eru á víðtækri samstöðu um Kárahnjúkavirkjun þegar við alþingismenn greiðum atkvæði um hana síðar á þessu þingi.