Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 17:08:23 (3862)

2002-01-31 17:08:23# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[17:08]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Til umfjöllunar er þáltill. Vinstri grænna um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls. Ég lýsi andstöðu við tillöguna.

Kárahnjúkavirkjun er stór virkjun á íslenskan mælikvarða. Eftir úrskurð umhvrh. má gera ráð fyrir að uppsett afl fullbyggðrar virkjunar verði 750 megavött og meðalorkuframleiðsla hennar 4.670 gígavattstundir á ári. Virkjunin verður því meira en tvisvar sinnum stærri en Búrfellsvirkjun. Hins vegar verður flatarmál lóna vegna Kárahnjúkavirkjunar ekki nema 66 ferkílómetrar sem getur ekki talist stór hluti af þeim 50 þús. ferkílómetrum sem miðhálendi Íslands er.

Allt tal um að verið sé að fórna hálendi Íslands er því úr lausu lofti gripið. Við munum áfram eiga stærstu ósnortnu víðerni í Vestur-Evrópu. Fyllyrðingar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um að 3% landsins alls yrðu fyrir áhrifum eru út í hött.

Aðdragandi framkvæmda við vatnsaflsvirkjanir er langur og að honum koma margir aðilar, stofnanir og fyrirtæki. Alþingi hefur með lagasetningu tryggt að ákvarðanir séu teknar á grundvelli bestu fáanlegu upplýsinga. Lög um mat á umhverfisáhrifum, skipulags- og byggingarlög, náttúruverndarlög, orkulög, lög um Landsvirkjun o.fl. skapa grundvöll ákvarðanatöku um virkjunarframkvæmdir. Með þessu hefur aðkoma almennings verið tryggð við gerð skipulagsáætlana og mat á umhverfisáhrifum. Þá þarf Alþingi sjálft að veita heimild fyrir virkjunarframkvæmdum og ráðherra að samþykkja hana og er í þeim efnum bundin af lögákveðnum sjónarmiðum.

Ekki er langt síðan miklar deilur spunnust um svokallað lögformlegt mat á umhverfisáhrifum í tengslum við Fljótsdalsvirkjun. Þá var krafa Vinstri grænna skýr: Allar framkvæmdir áttu að fara í mat á umhverfisáhrifum. Þær deilur tilheyra fortíðinni en ný útfærsla er komin fram. Sú framkvæmd sem nú er til umræðu er í þeim farvegi sem lög kveða á um. Þegar Fljótsdalsvirkjun var til umræðu var bent á þann möguleika að nýta vatnasvið Jöulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal með myndun Hálslóns og þyrma þannig Eyjabökkum. Var m.a. bent á þetta í svæðisskipulagi miðhálendisins.

En hvað gerist svo þegar þetta gengur eftir og ákveðið er að fara í þá útfærslu sem þarna er lýst? Jú, þá eru allt í einu sprottnir upp örfáir sjálfskipaðir sérfræðingar sem efast um hagkvæmni virkjunarkostsins, lýsa því yfir að um stórkostleg spjöll sé að ræða, að frekari rannsóknir vanti og fleira í þeim dúr. Til þess að kóróna allt saman leggja Vinstri grænir til að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Orð mín má ekki skilja sem svo að ég vantreysti þjóðinni eða óttist niðurstöðu hennar. Tillaga sú sem hér er til umræðu ber þess þó hins vegar þess vitni að þeir sem að henni standa séu ekki reiðubúnir að virða þær leikreglur sem þeir hafa sjálfir átt þátt í að setja. Þeir hafa uppi háværar kröfur um að framkvæmdir fari lögformlegar leiðir en eru síðan ekki reiðubúnir að taka niðurstöðunni. Þeir hafa aldrei ætlað sér að taka niðurstöðu í þessu máli heldur reyna að bregða fæti fyrir framgöngu þess með einhverjum hætti. Þessi tillaga er aðeins nýjasta útspil í þeim efnum. Það er lítilmannlegt af þjóðkjörnum fulltrúum að ætla að skorast undan hlutverki sínu með því að velta ábyrgðinni yfir á þjóðina í atkvæðagreiðslu um einstakar framkvæmdir.

Aðkoma almennings að málinu hefur verið tryggð með því að framkvæmdin fer í mat á umhverfisáhrifum og það er Alþingis að taka ákvörðun um hvort leyfi verður veitt fyrir framkvæmdunum. Það vekur hins vegar óneitanlega athygli að í tillögunni er ekki gert ráð fyrir að þjóðinni verði boðið upp á að hafna þessum virkjunarkosti alfarið heldur eingöngu að fresta framkvæmdinni eða samþykkja hana.

Á vegum iðnrn. er nú unnið að rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma með það að leiðarljósi að ná sem víðtækastri sátt um val á virkjunarkostum. Tilgangur rammaáætlunar er ekki að finna leiðir til að hafna virkjunarkostum heldur að taka virkjanir allar fyrir í einu og meta út frá sömu sjónarmiðum. Iðnrn. hefur frá upphafi gert grein fyrir því að þau verkefni sem í vinnslu eru skuli ekki látin bíða niðurstöðu rammaáætlunar.

Í augnablikinu virðast skilyrði vera fyrir hendi til þess að reisa nýtt álver hér á landi. Þar eru hins vegar að verki hlutir sem við höfum enga stjórn á og hafa ber í huga að tækifærið kann að vera runnið okkur úr greipum á næsta ári eða þegar niðurstaða rammaáætlunar liggur fyrir.

Hæstv. forseti. Í mínum huga er ágreiningsmálið einfalt. Það snýst ekki um gæsir eða hreindýr, landslagsheildir eða ósnortin víðerni. Ágreiningurinn lýtur að því hvort ráðast eigi í framkvæmdir yfir höfuð. Það er stefna þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að auka nýtingu endurnýjanlegra orkulinda landsins í sátt við umhverfið. Sú leið sem í dag er nærtækust er virkjun vatnsfalla og jarðhitasvæða vegna stóriðjuvera eins og álverksmiðja. Af þessari ástæðu barðist ríkisstjórnin fyrir því á alþjóðavettvangi að viðurkennd yrði sérstaða Íslands þegar loftslagsmál voru til umræðu og hafði sigur. Það er einfaldlega svo að framleiðsla áls með orku frá endurnýjanlegum orkulindum landsins er í raun ekkert annað en útflutningur á grænni orku. Með því að skapa skilyrði til þess að stóriðjufyrirtæki sjái sér hag í því að setja upp starfsemi á Íslandi erum við að axla ábyrgð í þessum málum.

En við erum ekki bara í þessu af einskærri fórnarlund. Það er nefnilega svo að framkvæmdir sem þessar hafa mikil efnahagsleg og byggðaleg áhrif. Við þurfum ekki annað en að líta nokkur ár aftur í tímann til að finna dæmi um þetta.

Ef af byggingu álvers á Austurlandi verður má gera ráð fyrir að landsframleiðsla verði 2% hærri en annars yrði. Gjaldeyristekjur af fyrri áfanga álvers verða meiri en af allri ferðaþjónustu á Íslandi í dag. Álframleiðsla Reyðaráls mundi meira en tvöfalda útflutningstekjur af áliðnaði miðað við stöðuna árið 2000 og varanleg áhrif verkefnisins á þjóðarframleiðslu gætu verið allt að 1,3%. Gera má ráð fyrir að rekstur fyrsta áfanga álversins þarfnist um 450 ársverka auk 300 afleiddra starfa. Menntunarkröfur starfsmanna verða fjölbreytilegar.

Ef af byggingu Reyðaráls verður munu um 10 þús. manns búa á Miðausturlandi í lok framkvæmdatíma en 7 þús. ef ekki verður af framkvæmdum. Þetta er kjarni málsins. Ríkisstjórnin vill nýta orkulindir landsins sem næst uppruna þeirra til hagsbóta fyrir þá sem þar búa.

Hæstv. forseti. Lífsviðurværi þjóðar okkar byggist að stórum hluta á því að nýta náttúruna og þau gæði sem hún hefur upp á að bjóða. Þegar öllu er á botninn hvolft stendur eftir að ágreiningurinn í þessu máli snýst um aðgerðir eða aðgerðaleysi. Ríkisstjórnin hefur skýra stefnu í þessum efnum, stefnu framkvæmda sem mun gera okkur mögulegt að halda úti öflugri velferðarþjónustu, öflugu menntakerfi, axla byrðar vegna umhverfismála sem snerta alla heimsbyggðina og skapa hagstæðari skilyrði til byggðauppbyggingar um land allt.

Hæstv. forseti. Ráð stjórnaraðstöðunnar, ráð Vinstri grænna eru: ,,Bara eitthvað annað.``