Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 17:27:02 (3864)

2002-01-31 17:27:02# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[17:27]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Sú tillaga sem hér er til umræðu er augljóslega fram komin til að tefja og helst koma í veg fyrir fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun. Það hefur auðvitað ekki farið fram hjá neinum að Visntri grænir eru á móti virkjunum og uppbyggingu stóriðju og kemur það glöggt fram í greinargerð með tillögunni. Ég ætla að fara örfáum orðum um samfélagsleg áhrif þessara framkvæmda. Á það hefur margoft verið bent að virkjun á Austurlandi og álver í Reyðarfirði muni gjörbreyta ástandinu í þessum landshluta til hins betra, en þar hefur fólki fækkað mjög á undanförnum árum og meðaltekjur eru þar með því lægsta sem gerist.

Fólksfækkun á síðustu árum hefur aðallega átt rætur sínar í því að ungt fólk sækir burt til náms og í leit að áhugaverðum og vel launuðum störfum.Í ítarlegri könnun sem Stefán Ólafsson prófessor gerði fyrir Byggðastofnun á ástæðum búferlaflutninga af landsbyggðinni kom í ljós að langstærsti orsakavaldurinn er einhæfni atvinnulífsins. Á Austurlandi er atvinnulíf einhæfara en víða annars staðar á landinu. Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði mun gjörbreyta því ástandi.

Í skýrslu um efnahagsleg áhrif álvers í Reyðarfirði kemur fram að af 414 störfum við fyrsta áfanga álversins verða 14 starfsmenn með akademíska háskólamenntun, 21 með tæknimenntun á háskólastigi eða sambærilega menntun, 55 með sérstaka tæknimenntun, 298 með iðnnám eða sérstakt fjölbrautanám til að vinna við álframleiðslu og 26 í störfum sem krefjast engrar sérstakrar þjálfunar. Við þetta bætast svo um 300 afleidd störf á ýmsum sviðum, svo sem við viðhald, verslun, tölvuþjónustu, afþreyingu, hótelgistingu, flutninga, ferðalög tengdum framkvæmdunum og fleira. Fjölbreytni atvinnulífsins mun því aukast mjög með tilkomu álversins og eftir að síðari áfangi hefur verið tekinn í notkun verða um 1.000 ný störf á Austurlandi við álverið og þjónustu við það.

Talið er að þriðjungur starfa í álverinu verði unninn af aðkomufólki, tæp 15% af brottfluttum Austfirðingum og liðlega helmingur af heimafólki og nýliðum á vinnumarkaði. Því er ljóst að þessi mikla uppbygging mun hafa mjög jákvæð áhrif á Austurlandi.

Einnig skiptir miklu máli í þessu sambandi að álver greiða að meðaltali hærri laun en aðrar framleiðslugreinar að fiskveiðum undanskildum. Störf við stóriðju eru mjög eftirsótt, t.d. sóttu á annað þúsund manns um störf hjá Norðuráli þegar fyrirtækið hóf starfsemi árið 1998 og meðalstarfsaldur í stóriðjufyrirtækjum er mjög hár. Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði munu því hafa gríðarlega mikil og góð áhrif á samfélagið á Austurlandi, enda áhugi íbúanna mikill. Skoðanakönnun sýndi að 75% ungra Austfirðinga á aldrinum 18--28 ára eru hlynntir álverinu og að 40% fólks á þessum aldri á Miðausturlandi hefur áhuga á að starfa í álverinu auk þess sem 17% brottfluttra Austfirðinga á aldrinum 20--49 ára telur líklegt að þeir muni flytja aftur austur þegar álverið rís í Reyðarfirði. Þá hafa forustumenn sveitarfélaga, atvinnurekendur og fulltrúar stéttarfélaga lýst miklum áhuga á þessu verkefni og vilja samstarf um að hámarka jákvæð áhrif þess. Vilji heimamanna er því ótvíræður.

Enginn vafi leikur á því að bætt afkoma fólks og fjölgun íbúa mun efla menningar- og félagslíf á svæðinu eins og dæmin sanna frá Grundartanga. Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði er því stærsta tækifærið sem við eigum til að snúa við óhagstæðri byggðaþróun og með ólíkindum er að Vinstri grænir skuli berjast svo hatrammlega gegn þessum framkvæmdum á sama tíma og þeir skamma ríkisstjórnina reglulega fyrir aðgerðarleysi í byggðamálum.

Ég hef aðallega fjallað um áhrif Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði út frá áhrifum þessara framkvæmda á byggð og mannlíf á Austurlandi. Ég vil einnig nefna mikilvægi álversins fyrir þjóðarbúið, en ætla má að útflutningsverðmæti afurða verði um 40 milljarðar við fyrri áfanga og 60 milljarðar þegar báðir áfangar hafa verið teknir í notkun. Það mun síðan leiða til aukinnar landsframleiðslu, minni viðskiptahalla og lækkunar erlendra skulda.

Herra forseti. Ég sé ekki að það þurfi frekar þjóðaratkvæðagreiðslu um atvinnuuppbyggingu á Austurlandi en í öðrum landshlutum. Ég er andvígur þessari tillögu og mun greiða atkvæði gegn henni.