Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 17:35:12 (3866)

2002-01-31 17:35:12# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[17:35]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í ágúst 2001 úrskurðaði Skipulagsstofnun að Kárahnjúkavirkjun mundi hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og að ekki hefði verið sýnt fram á að annar ávinningur af framkvæmdunum, svo sem efnahagslegur ávinningur, mundi vega upp þau verulegu neikvæðu umhverfisáhrif sem virkjuninni fylgdu. Einnig taldi Skipulagsstofnun skorta upplýsingar um einstaka þætti framkvæmdarinnar svo segja mætti fyrir um endanleg áhrif hennar.

Með vísan til þessa lagðist Skipulagsstofnun í úrskurði sínum gegn framkvæmdinni og studdi niðurstöðuna ítarlegum rökum. Framgangur málsins var síðan með eðlilegum hætti. Ákvarðanir hæstv. umhvrh. varðandi framkvæmdir á hálendinu hafa hins vegar verið mjög umdeildar. Það er ámælisvert þegar yfirvöld láta pólitísk markmið ráða för í svo mikilvægu máli. Út af stendur ósvarað hver arðsemi Kárahnjúkavirkjunar verður að uppfylltum skilyrðum í úrskurði umhverfisráðherra. Við hljótum að krefjast svara við því hver arðsemin verði, áður en málsmeðferð lýkur.

Þingsályktunartillaga sú sem hér er til umræðu felur í sér að þjóðinni verði falið að velja í þjóðaratkvæðagreiðslu milli tveggja kosta er varða framtíð hálendisins. Þeir kostir sem fólki er gert að velja á milli eru hins vegar frekar óljósir því þar er raunverulega ekki um tvo kosti að ræða. Tillagan felur í sér þrjá kosti að mínu mati. Kjósendur eiga samkvæmt tillögunni að velja milli kosta sem hljóða svo, með leyfi forseta:

,,a. Núverandi áforma um Kárahnjúkavirkjun með virkjun Jökulsár á Dal og Jökulsár í Fljótsdal ásamt með tilheyrandi stíflum, vatnaflutningum, veitum og öðrum tengdum framkvæmdum.

b. Frestun ákvarðana um framtíðarnýtingu svæðisins uns tekin hefur verið afstaða til verndunar þess og stofnunar þjóðgarðs með einu stærsta ósnortna víðerni Evrópu. Einnig liggi þá fyrir endanleg rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvama með flokkun virkjanakosta, stefnumótun um framtíðarskipan orkumála og áætlun um orkunýtingu til lengri tíma.``

Um hvaða kosti eru kjósendur þá að velja? Þeir eru ekki að velja milli þess að framkvæmdum á hálendinu verði fram haldið eða ekki. Valið er miklu óljósara. Færi svo að ríflega helmingur kjósenda hafnaði kosti a, en sá kostur er að halda áfram með þegar áformaðar virkjanir norðan Vatnajökuls, og veldi lið b, þá er sá liður þannig fram settur í þingsályktunartillögunni að hann felur í sér tvo möguleika, sem eru að friða hálendið eða virkja að vandlega athuguðu máli.

Eigi þjóðin að taka afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðarnotkun á landsvæðinu norðan Vatnajökuls er sú skylda lögð okkur á herðar að upplýsa þjóðina um landsvæðið sem taka á undir framkvæmdir eða að öðrum kosti láta ósnert.

Það er því vandséð að þjóðaratkvæðagreiðsla sem hér er lögð til færði okkur nær endanlegri ákvarðanatöku um framtíð hálendisins. Þjóðaratkvæðagreiðsla um svo óljósa kosti gæfi í besta falli vísbendingu um vilja fólks varðandi frestun framkvæmda. Með tilliti til þess hve langt undirbúningur virkjana á svæðinu er þegar kominn er þessi tillaga nokkuð seint fram komin. Atkvæðagreiðsluna má þó framkvæma fái tillagan skjóta og jákvæða afgreiðslu á hv. Alþingi. Kárahnjúkavirkjun er risavirkjun á okkar mælikvarða. Málið hefur farið í lögmætt ferli og í úrskurði Skipulagsstofnunar segir svo m.a., með leyfi forseta:

,,Skipulagsstofnun telur ljóst af framlögðum gögnum framkvæmdaraðila, málsmeðferð stofnunarinnar og framkomnum umsögnum og athugasemdum að svo víðtæk framkvæmdaáform sé erfitt að fella að málsmeðferð samkvæmt ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun telur að þeir frestir sem settir eru í lögunum um kynningu og ákvörðun um matsáætlun og matsskýrslu séu ekki til þess fallnir að tryggja fullnægjandi kynningu og umfjöllun meðal stofnana, almennings og félagasamtaka í samræmi við markmið laganna um eins umfangsmikil framkvæmdaáform og hér ræðir.``

Umhverfisráðuneytinu bárust 122 kærur vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar og umfjöllun umhverfisráðuneytis er okkur birt á 124 blaðsíðum. Margt hefur verið ákveðið í úrskurði umhverfisráðuneytis í þá veru að minnka sem mest umhverfisspjöll vegna þeirra framkvæmda sem virkjun fylgja. Ákvörðunin er samt sem áður pólitísk og þjónar stefnu ríkisstjórnarinnar. Eftir sem áður vantar enn skýr svör um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar. Um það segir svo, með leyfi forseta, í úrskurðinum frá umhverfisráðherra á bls. 114:

,,Samkvæmt lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, er það stjórn fyrirtækisins, í umboði eigenda þess, þ.e. íslenska ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar, sem tekur ákvörðun um byggingu nýrra raforkuvera, eins og þess sem hér er fjallað um, að fengnu leyfi iðnaðarráðherra skv. 7. grein laganna. Slík ákvörðun hlýtur að taka mið af arðsemi fyrirhugaðs orkuvers, sbr. 13. grein laganna.

Með vísun til fyrirmæla 75. gr. stjórnarskrárinnar er það álit ráðuneytisins að ekki sé unnt að skýra hugtakið samfélag í j-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 svo rúmt að það taki til arðsemi framkvæmdar sem slíkrar. Þar af leiðandi er það atriði ekki eitt þeirra, sem líta ber til, þegar umhverfisáhrif framkvæmdar eru metin, heldur er það sem fyrr segir hlutverk eigenda og stjórnenda framkvæmdaraðila og á ábyrgð þeirra.``

Það er mín skoðun að ef mögulegt er að virkja við Kárahnjúka með einni stíflu sé það betri kostur en margar smávirkjanir að því gefnu að landspjöll verði í lágmarki miðað við stærð verksins. Jafnframt er afstaða mín skilyrt því að arðsemi Kárahnjúkavirkjunar sé tryggð við sölu orkunnar. Aðeins þannig er fjármögnun verksins áhugaverður kostur.

Ef ekki verður sýnt með sannfærandi hætti fram á arðsemi Kárahnjúkavirkjunar er sjálfboðið að eignaraðilar að þeirri virkjun eða fjármögnunaraðilar verða lítt áhugasamir við að hætta fjármunum sínum í þá framkvæmd. --- Góðar stundir.