Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 17:45:11 (3870)

2002-01-31 17:45:11# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[17:45]

Þuríður Backman:

Virðulegi forseti. Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar rekur okkur áfram í stórfelldri orkuöflun. Núverandi álframleiðendur vilja stækka verksmiðjurnar og ríkisstjórnin leggur ofurkapp á að nýtt álver rísi á Austurlandi. Hugmyndin um rekstur stóriðju á Austurlandi er ekki ný af nálinni. Hún hefur komið upp á nokkurra ára fresti en lognast út af af ýmsum ástæðum.

Þær hugmyndir sem nú eru uppi um stærð álvers á Reyðarfirði hafa þróast samfara þeim virkjanakostum sem Landsvirkjun hefur lagt fram. Kárahnjúkavirkjun er svo risavaxin að hún krefst mjög orkufreks iðnaðar til að ganga upp. Þannig spennir hvort annað upp í stærð, virkjun og álver. Þessi áform, svokallað Noral-verkefni, hafa breyst frá því að framkvæmdin var kynnt og virkja átti Jökulsá í Fljótsdal með Fljótsdalsvirkjun en fallið var frá þeirri virkjun, m.a. vegna mikillar andstöðu almennings í landinu. Þess í stað var sett upp áætlun um enn stærri virkjun og álver á Reyðarfirði.

Þó að stóriðja væri lausnarorð í atvinnu- og byggðastefnu stjórnarflokkanna í síðustu kosningabaráttu var Kárahnjúkavirkjun aldrei nefnd enda var hún ekki á teikniborði Landsvirkjunar á þeim tíma. Þeir sem gáfu stjórnarflokkunum atkvæði sitt hafa trúlega séð fyrir sér stóriðju í líkingu við þá sem fyrir er í landinu, stóriðju sem ekki krefst svo gríðarlegra óafturkræfra náttúruspjalla sem Kárahnjúkavirkjun mun valda.

Ástæða þáltill. er úrskurður hæstv. umhvrh. frá 20. des. sl. um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar þar sem ráðherra úrskurðar þvert á niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Úrskurður skipulagsstjóra var skýr því að þrátt fyrir að framlagðar upplýsingar hefðu ekki verið fullnægjandi taldi hann að á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir lágu væru þær nægjanlegar til að telja að fyrirhugaðar framkvæmdir væru líklegar til að hafa í för með sér veruleg neikvæð umhverfisáhrif, og framkvæmdinni því hafnað. Einna þyngst vógu neikvæð umhverfisáhrif fyrri áfanga virkjunarinnar og þá sérstaklega vegna jarðvegsrofs og áfoks á víðfeðm svæði austan Jökulsár á Dal með tilkomu Hálslóns og miklar breytingar á vatnafari vegna flutnings Jökulsár á Dal yfir í Lagarfljótið. Þessir miklu vatnaflutningar munu hafa áhrif á t.d. grunnvatnsstöðu á láglendum svæðum meðfram Lagarfljótinu.

Niðurstöður mats á umhverfisáhrifum eiga að vera leiðbeinandi fyrir afgreiðslu og úrskurð umhvrh. Þótt úrskurður hæstv. ráðherra hafi verið með nokkrum skilyrðum, og þeim öllum til bóta, snerta þau á engan hátt þær framkvæmdir sem mestum skaða valda, eru óafturkræfar og voru helsta forsenda þess að Skipulagsstofnun lagðist gegn Kárahnjúkavirkjun.

Kárahnjúkavirkjun er gríðarlegt mannvirki og er ljóst að mat á umhverfisáhrifum slíkra framkvæmda þarf að fara í annan farveg en þegar um minni framkvæmd er að ræða. Slíkum stórverkefnum þarf að gefa góðan undirbúningstíma svo hægt sé að vinna að rannsóknum og mati með eðlilegum hætti.

En margra kosta er völ við nýtingu landsins gæða. Ákvarðanir um landnýtingu geta haft víðtæk og langvarandi áhrif á náttúrufar, minjar, atvinnulíf og samfélag, eins og fram hefur komið við mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Vandaður undirbúningur að ákvörðun dregur úr hættu á mistökum og stuðlar að meiri sátt um niðurstöður. Því ætti ekki að ráðast í slíkar virkjunarframkvæmdir sem Kárahnjúkavirkjun er fyrr en rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma liggur fyrir en rammaáætluninni er ætlað að byggja á faglegum og lýðræðislegum vinnubrögðum.

Ef Alþingi samþykkir virkjunarleyfi til Kárahnjúkavirkjunar á þessu þingi og í framkvæmdir verður ráðist fáum við aldrei að leggja mat á aðra virkjunarkosti, t.d. með tilliti til orkugetu og orkunýtingar, svo sem til vetnisframleiðslu, atvinnu- og byggðaþróunar, náttúru og nýtingar landsins sem ósnortins landsvæðis. Við kunnum ekki enn að verðleggja ósnortið land og hvað það getur þýtt fyrir okkur sem undirstaða arðvænlegrar greinar innan ferðaþjónustunnar eða fyrir afkomendur okkar til þess eins að njóta fegurðar landsins.

Við höfum nýlega gert jökulhettu Vatnajökuls að þjóðgarði. Hugmyndir eru uppi um Snæfellsþjóðgarð og til framtíðar litið ættum við nú þegar að undirbúa verndun svæðisins norðan Vatnajökuls, landsvæðis hringinn í kringum Vatnajökul og líta til þess að svæðið norðan Vatnajökuls er í dag stærsta ósnortna víðerni Evrópu. Hver er ástæða komu þeirra erlendu ferðamanna sem heimsækja okkur í dag? Er það ekki náttúra landsins og er ekki líklegt að hún verði enn eftirsóttari í framtíðinni?

Herra forseti. Ég vil mótmæla orðum hv. þm. Tómasar Inga Olrichs um að við viljum eingöngu fá þá ferðamenn sem skilja eftir arð í landinu þegar þeir nýta sér hina ýmsu þjónustu en á honum mátti skilja að þeir sem væru komnir hingað til að fara inn á hálendið og vildu njóta náttúrunnar væru ekki jafnvelkomnir. Auðvitað eru allir velkomnir til landsins og þá ekki síður þeir sem koma til að ferðast um óspillta náttúru.

Herra forseti. Úrskurður hæstv. umhvrh. er fallinn. Hann er lokaniðurstaða mats á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Á matsferlinu gafst almenningi og stofnunum tækifæri til að koma með athugasemdir við framkvæmdina, og Skipulagsstofnun bárust svo sannarlega fjölmargar athugasemdir. Á forsendum gagna Landsvirkjunar og þeirra athugasemda sem bárust vegna áætlunarframkvæmda lagðist Skipulagsstofnun gegn framkvæmdinni.

Minna má á að samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum ber að hafa í huga þau sjónarmið að við framkvæmd laganna skuli náttúruauðlindir nýttar af varúð og skynsemi. Jafnframt byggja lögin á meginreglu sjálfbærrar þróunar, m.a. reglunni um að hver einstaklingur eigi rétt á umhverfi sem stuðlar að heilbrigði og farsæld, rétti sérhvers einstaklings varðandi ákvarðanir er snerta nánasta umhverfi hans, og mengunarbótareglunni.

Herra forseti. Hæstv. umhvrh. virti ekki niðurstöðu Skipulagsstofnunar og raddir fólksins í landinu. Til að fá fram vilja þjóðarinnar um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls er hér lagt til að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla eins og gert hefur verið grein fyrir. Vilji Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er alveg skýr í þessu efni. Við viljum að stofnaður verði þjóðgarður sem nái yfir Vatnajökul, Snæfellssvæðið og hálendið norðan Vatnajökuls.