Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 18:09:52 (3873)

2002-01-31 18:09:52# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[18:09]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. 1. þm. Norðurl. e., Halldóri Blöndal, að við séum ekki hvenær sem er tilbúin til að ræða við hv. þm. um atvinnumál. Við fögnum því ævinlega þegar hv. þingmaður og hæstv. forseti vippar sér úr forsetastólnum og tekur lifandi þátt í umræðum hér. Ég ætla líka að nota tækifærið og óska hv. þm. til hamingju með starfið sem hans áralanga barátta hefur nú flutt norður í Mývatnssveit og hefur þá ekki hv. þm. setið á þingi til einskis. Hann getur þó a.m.k. státað af því þegar upp verður staðið að hann hafi komið einu starfi norður í land og munar nú um minna.

Varðandi það sem hv. þm. ræddi í ræðu sinni og ég kem kannski betur inn á síðar í umræðunni, að það væri ágalli á þessari tillögu að hún gerði ráð fyrir því að kjósa samhliða sveitarstjórnarkosningum þá eru í fyrsta lagi ýmsar hefðir fyrir því að nota tækifærið og kjósa um fleira en eitt í einu. Það byggir á þeirri virðingu fyrir kjósendum að þeim sé fullkomlega treystandi til þess að halda slíku aðgreindu og merkja við á tveimur atkvæðaseðlum í einni og sömu kosningunni. Erlendis er þetta iðulega gert svona, þ.e. að tækifærið er notað og leitað eftir áliti þjóða um mikilsverð mál í tengslum við almennar kosningar. Nú síðast kusu Danir sameiginlega til sveitarstjórna og þings á einum og sama kjördeginum í haust.

Málflutningur fyrir máli af þessu tagi fer eðli málsins samkvæmt meira fram á landsvísu og síðan aftur málflutningur um sveitarstjórnarmálin staðbundið í hverju sveitarfélagi. Ef þetta er hins vegar eina ástæðan fyrir því að hv. þm. treystir sér ekki til að styðja tillöguna þá höfum við þegar boðið upp á það að ræða tilhögun kosningarinnar og hvort valin yrði sjálfstæður kjördagur fyrir hana. Það kostar að vísu meira og er meira fyrirtæki. En að sjálfsögðu er rétt og skylt að ræða það ef það er vilji manna.