Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 18:48:04 (3882)

2002-01-31 18:48:04# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[18:48]

Mörður Árnason (andsvar):

Þetta, virðulegi forseti, er mjög skýrt í mínu tilviki. Ég hef lýst yfir samþykki, eða stuðningi réttara sagt, við þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem kostir væru skýrðir, þar sem kostirnir væru já eða nei, við þeim framkvæmdaáformum sem nákvæmlega nú eru uppi og ég sé ekki tilganginn í því að flytja tillögu af þessu tagi. Annaðhvort eru menn með þann grun eða þá ætlun að þessi tillaga geti fengið meiri hluta hér á þinginu --- og þá eru menn hangandi auðvitað einhvers staðar í lausu lofti með þá ætlun sína ef það á að gerast vegna frestunarákvæðisins --- eða menn setja fram þá skýru kosti sem eru í málinu sem þegar liggja fyrir, já eða nei við nákvæmlega þessari tillögu.

Og ég vil bara ítreka að ég fagna því að hv. þm. lýsir því yfir að hann mundi greiða atkvæði á ákveðinn veg í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. En yrði hann á móti Kárahnjúkavirkjun af hvaða tagi sem hún yrði?